Leyfum náttúrunni að njóta vafans

Fuglavernd fagnar þeim áfangasigri sem fólgin er í úrskurðum Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi sjókvíeldi. Það að vanda skuli til verka og fylgja þeim stjórnsýslureglum og lögum sem í gildi eru, svo ekki sé minnst á alþjóðlegar skuldbindingar er kemur að náttúruvernd er vissulega áfangasigur.

Leyfum náttúrunni að njóta vafans, ágengar framandi tegundir teljast vera önnur alvarlegasta ógnunin við líffræðilegan fjölbreytileika á hverjum stað, á eftir tapi og uppskiptingu búsvæða. Reynsla Norðmanna af opnu sjókvíeldi hefur leitt til þess að hætt er að gefa út leyfi þar í landi, vegna þeirra fjölmörgu vandamála sem ekki hefur fundist lausn á. Þar er e.t.v. komin ástæða þess að nú flykkjast fyrirtækin til Íslands.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendi frá sér úrskurð 6/2017 Háafell Sjókvíeldi þann 20. júní 2017 þar sem því kærumáli var vísað frá. Sama dag úrskurðaði nefndin 5/2017 Háafell Sjókvíeldi og þar var um að ræða sama kærumál en aðrir málsaðilar. Í þeim úrskurði segir:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis fyrir Háafell ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2017, er barst nefndinni 7. s.m., kærir NASF, verndarsjóður villtra laxastofna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Æðarræktarfélag Íslands og Fuglavernd, ásamt nánar tilgreindum aðilum er telja sig eiga hagsmuna að gæta vegna umhverfisverndarsjónarmiða og veiðiréttinda, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að gefa út starfsleyfi fyrir Háafell ehf. til sjókvíaeldis. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Nánar um þetta má lesa á Verkefnin > Umsagnir

Æðarfugl
Æðarfugl. Ljósmynd: Sindri Skúlason