Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.
Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.
Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.