Loftlagsganga 29.nóv.2015

Mánudaginn 30. nóvember hefst loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í París. Þar er stefnt að bindandi samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með það að markmiði að hlýnun andrúmslofts jarðar haldist innan 2° C.

Alþjóðlegar grasrótarhreyfingar þrýsta á þjóðarleiðtoga um að draga nægilega úr losun til að halda hlýnun jarðar undir 2° C og krefja iðnríkin að standa við það fyrirheit frá 2009 að styrkja þriðjaheimsríki um 100 milljarða dollara á ári frá og með 2020. Annars vegar til að þessi ríki geti aðlagast nýjum og erfiðum aðstæðum vegna breytinga á loftslagi og hins vegar til að gera þeim kleift að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir. Liður í því er Global Climate March sem verður gengin í fjölmörgum borgum um allan heim þann 29. nóvember næstkomandi.

Fuglavernd ætlar að taka þátt og hvetjum við félagsmenn til að mæta á svokallað „Drekasvæði“ sem staðsett er á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, þaðan sem gengið verður til kröfufundar á Lækjartorgi. 
Frekari upplýsingar um gönguna má finna hér
.

Loftslagsáhrif eru mikil á fugla. BirdLife í samstarfi við Audubon gefur út skýrslu í tilefni af loftlagsráðstefnunni um áhrif loftlagsbreytinga á fuglalíf:  Sjá hér: http://climatechange.birdlife.org/

Við viljum undirstrika þá kröfu að Ísland axli ábyrgð sína í loftslagsmálum og skuldbindi sig í París til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 40% fyrir árið 2030 – óháð markmiði ESB um 40% samdrátt í losun. Ennfremur beri Íslandi að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 líkt og mörg önnur lönd gera.