Fuglavernd, Canon og Nýherji verða með fræðslufund um fuglaljósmyndun fimmtudagskvöldið 19. mars 2015 ásamt því að sýna aðdráttarlinsur frá Canon. Þar munu bæði atvinnumenn og áhugafólk um fuglaljósmyndun veita fræðslu, en meðfram því að leggja áherslu á fuglavernd verður farið í tæknileg atriði sem og praktíska hluti, eins og t.d. hvernig er best að nálgast fugla í sínu náttúrulega umhverfi. Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37, og hefst kl. 19:30. Þátttaka er ókeypis en óskað er eftir skráningu (hér er linkur á skráningarsíðu). Jóhann Óli Hilmarsson fjallar um virðingu fyrir viðfangsefninu og kemur þar aðeins inná löggjöf um fuglavernd. Þá fjallar hann um góða staði til að ljósmynda fugla ásamt því að sýna myndir af fuglum í umhverfi sínu. Sindri Skúlason fer yfir listina að mynda fugla ásamt því að fara lauslega í tæknileg atriði og hvernig best er að nálgast fugla og hvað sé mikilvægt að hafa í huga við fuglaljósmyndun (hann tók myndina af flórgoðanum). Ásta Magnúsdóttir og Helga Guðmundsdóttir sýna valdar myndir og segja sögurnar á bak við þær. Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. hina nýju EF 100-400mm f/4.5-5.6L IS II USM, EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X, EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Skemmtilegur og spennandi viðburður fyrir alla áhugasama um fugla og fuglaljósmyndun!
6