Laugardaginn 5. apríl 2014 munum við hittast í Friðlandinu í Vatnsmýrinni og láta hendur standa fram úr ermum. Mæting um tíu en allt í lagi að mæta seinna ef þannig stendur á. Það sem þarf að gera er að safna saman rusli, gera hreiður fyrir æðarfuglinn í Stóra hólmanum í Norður-Tjörn og grisja sjálfssáðan trjágróður sem vex á varplandi anda og mófugla í friðlandinu við Norræna húsið.
Allir velkomnir. Þeir sem eru tilbúnir til starfans mega senda línu á fuglavernd@fuglavernd.is – aðallega til að reikna út hve margir verða í kaffi. Nánari áætlun verður tilkynnt þegar nær dregur. Margar hendur vinna létt verk.
Fuglavernd stofnaði í fyrra, með Norræna húsinu, óformlegan hóp sem er kallaður “Hollvinir Tjarnarinnar”. Tilgangurinn er að virkja krafta þeirra áhugamanna sem tilbúnir eru að leggja góðu málefni lið, nefnilega að hlúa að lífríki Tjarnarinnar. Fyrsta aðgerðin var 7. apríl 2013 en þá var tiltekt í Friðlandinu , rusli safnað saman, síkin hreinsuð og runnar og tré klippt. Meðfylgjandi mynd er af hluta af hópnum sem mætti þennan laugardag.