Myndasýning frá Tyrklandi og Georgíu

Fuglar og náttúra í Tyrklandi og Georgíu verður umfjöllunarefni fræslufundar Fuglaverndar 26. febrúar kl. 20:30

Edward Rickson og Yann Kolbeinsson segja frá

Síðastliðið vor hélt lítill hópur fuglaskoðara af nokkrum þjóðernum í ferð um stóran hluta Tyrklands og í Kákasus-fjöllin í Georgíu. Landslag, náttúra og mannlíf er mjög fjölbreytt á þessu stóra svæði. Þar mætast austrið og vestrið. Þar eru Kúrdar, Armenar og fleiri minnihlutahópar. Þar eru ævafornar menningarminjar. Þar eru hæstu fjöll Evrópu. Þar er eldfjallalandslag og hraun sem gæti verið í Þingeyjarsýslum. Síðast en ekki síst afar fjölbreytt og ríkulegt fuglalíf. Leiðangursmenn sáu yfir 300 tegundir á þremur vikum, sem ku vera met fyrir þetta svæði.

Mikið var myndað í ferðinni og ætla þeir félagar að sýna brot af því besta á fræðslufundinum.

Fundurinn byrjar kl. 20:30 og er haldinn í húsakynnum Arions banka í Borgartúni 19. Fundurinn eru öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Á vef Fuglaverndar má finna frekari upplýsingar: www.fuglavernd.is.