Laugardaginn 11. maí verður Fuglavernd með fuglaskoðunarferð um Reykjanesið. Helgi Guðmundsson leiðsögumaður og fuglaáhugamaður leiðir ferðina. Lagt verður af stað frá Höfða klukkan 9:00 að morgni þess 11. maí stundvíslega en áætlaður komutími til baka verður um klukkan fimm. Fólk þarf að muna að taka með sér sjónauka, jafnvel fuglabók, nesti fyrir allan daginn og gott er að hafa heitt á brúsa. Skráning er á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477 og kostar kr. 8000 kr. fyrir félagsmenn og kr. 10.000 fyrir utanfélagsmenn. Farið verður í ferðina ef 12 skrá sig en hámark eru 17 þátttakendur. Bendum þó á að síðasta vor seldist upp á nokkrum dögum.
Eftirfarandi er stutt leiðarlýsing birt með fyrirvara.
Farið verður frá Höfða kl. 09:00 og litið til fugla á Álftanesi þar sem margæsir eru nú í þúsundavís og stórir hópar af kríum og rauðbrystingum. Ef veður leyfir verður jafnframt skoðað flórgoða- og hettumávavarp á Ástjörn.
Ekið suður með sjó og numið staðar á helstu fuglaskoðunarstöðum, s.s. við höfnina í Garði, þar sem e.t.v. má sjá skrofur og súlur fljúga hjá. Við Garðskaga má jafnframt búast við sjófuglum og enn fremur safnast þar oft fjöldi vaðfugla í fjörur. Í Sandgerði eru einnig fjölmargir vaðfuglar og má að líkindum sjá sanderlur í fjörum og óðinshana á tjörnum.
Því næst verður ekið í átt að Ósabotnum og komið við í Höfnum. Þá verður litið til hafs við Valahnjúk á Reykjanesi þar sem Eldey blasir við skammt undan landi. Í Valahnjúk verpa m.a. fýll, rita og teista.
Ekið til austurs um Grindavík og Ögmundarhraun að Krýsuvíkurbergi. Í berginu verpa allir íslenskir svartfuglar: lundi, álka, langvía og stuttnefja, auk fýls og ritu. Ef veður og færð leyfir verður ekið niður að bjarginu og svipast um eftir bjargfuglum. Síðan verður haldið hjá Kleifarvatni til Reykjavíkur.
Þessa mynd af óðinshana tók Jakob Sigurðsson.