Í hádegisfréttum í gær,5.feb., var sagt frá 6 milljón króna fjárveitingu ríkisstjórnarinnar til rannsókna á ástandinu í Kolgrafarfirði og hvort samhengi sé á milli þverunar fjarðarins og endurtekins síldardauða í firðinum. Fuglavernd fagnar þessu en hefur samt sem áður áhyggjur af ástandinu hér og nú. Rannsóknir eru þó af hinu góða. Á meðfylgjandi mynd má sjá grútarblauta langvíu en rannsakandi fjörunnar við Kolgrafarfjörð lýsti henni svona: Í þeim hluta fjörunnar sem hvað mest er af dauðri síld er grútarmengun veruleg, grútarlag er yfir allri fjörunni. Víðast er um að ræða þunna slikju sem hylur allt,gerir fjöruna mjög hála og litar svarta fjörusteina kremlitaða, en efst í fjörunni eru bunkar með blöndu af misstórum grútarkögglum, þangi og möl, allt að 1 m að þykkt. Grúturinn minnir helst á e.k. blöndu af smjöri og tyggjói og lyktin er mjög vond. Grúturinn festist í öllu sem við hann kemur, þ.á m.fötum, skóm, fiðri og fuglafótum. Við erum mjög uggandi yfir fuglalífinu á svæðinu. Þúsundir fugla leita í nýdauða síldina og mikil hætta á að grúturinn makist í fiðrið. Á myndinni má sjá grútarblauta langvíu en Róbert Arnar tók myndina.
6