Landvernd og Fuglavernd hafa sent skrifstofu Ramsar samningsins erindi þar sem farið er fram á að samningurinn rannsaki möguleg áhrif 45-90 MW jarðvarmavirkjunar Landsvirkjunar í Bjarnarflagi á lífríki Mývatns. Mývatns- Laxársvæðið er eitt þriggja Ramsarsvæða á Íslandi sem njóta verndar samkvæmt samningnum, en hann fjallar um vernd votlendis sem hefur alþjóðlegt gildi, ekki síst vegna fuglalífs.
Landvernd og Fuglavernd fara þess á leit við Ramsarskrifstofuna að hún grípi til eftirfarandi aðgerða:
- Krefji íslensk stjórnvöld, sem bera ábyrgð á framfylgd samningsins hér á landi, um upplýsingar um þær hættur sem kunni að steðji að vistkerfi Mývatns og Laxár frá hinni fyrirhuguðu jarðhitavirkjun Landsvirkjunar í Bjarnarflagi.
- Taki til skoðunar að tilnefna Mývatn-Laxá svæði á Montreux-lista samningsins sem er nokkurs konar válisti Ramsarsvæða sem sérstök hætta steðjar að og eru undir sérstöku eftirliti Ramsar-samningsins.
- Krefji íslensk stjórnvöld um viðunandi eftirlit og vöktun á lífríki Mývatns.
Í þessu sambandi benda samtökin á að leita þurfi svara við spurningum sem varða mengun frá virkjuninni. Þar ber hæst förgun affallsvatns og möguleg kæling á grunnvatnsstreymi sem getur minnkað kísilstreymi til Mývatns, sem er ein undirstaða fjölbreytts lífríkis vatnsins. Einnig benda samtökin á að Landsvirkjun hefur ekki útskýrt hvernig fyrirtækið hyggist standast kröfur varðandi brennisteinsmengun frá virkjuninni.