Náttúruperla í uppnámi!

Höfundur: Ólafur Karl Nilsen, formaður Fuglaverndar. Greinin birtist áður í Fuglum 2017.

Horft suður með Svartá við Hamarinn. Efst til hægri sjáum við tún Víðikersmanna þar á stíflan að rísa og áin að fara í pípu að stöðvarhúsinu sem ætlaður er staður í túnunum vestan og norðan við Hamarinn neðst til vinstri á myndinni.

 

Í um 40 ár hef ég unnið við fuglarannsóknir á Norðausturlandi, fyrst sem aðstoðarmaður hjá þeim merka fræði- og náttúruverndarmanni Arnþóri Garðarssyni, seinna eða frá árinu 1981 við eigið verkefni þar sem fókusinn hefur verið á fálka og rjúpu. Strax á unglingsárum, löngu áður en ég kom fyrst í Þingeyjarsýslur, hafði ég mjög sterka mynd af þessu svæði í mínum huga, þar væri landið fagurt og frítt, veður góð, náttúran auðug og gjöful og gott mannlíf. Þessi ímynd byggði á frásögnum Arnþórs og Finns Guðmundssonar fuglafræðings, og skrifum Theódórs Gunnlaugssonar, þeirra Grímsstaðabræðra og fleiri í Náttúrufræðinginn.

Eins hafði ég fylgst af athygli og aðdáun með baráttu Þingeyinga fyrir verndun Mývatns og Laxár í upphafi áttunda áratugarins. Þá voru uppi „mikilfengleg“ áform um að virkja Laxá, þetta átti að gerast í nokkrum áföngum og í sinni endanlegu mynd átti Mývatn að þjóna sem miðlunarlón fyrir virkjanirnar í dalnum og til að auka við vatnsmagnið átti að taka Skjálfandafljót, Suðurá og Svartá úr farvegum sínum lengst suður á öræfum og leiða norður heiðar í skurðum! Í dag hljómar þetta eins og óðs manns órar en í þá daga var hættan raunveruleg. Þökk sé baráttu manna eins og Hermóðs Guðmundssonar í Nesi og Eysteins Sigurðssonar á Arnarvatni þá voru þessar hugmyndir kveðnar í kútinn.

Á árlegum ferðum mínum um fálkaslóðir í Þingeyjarsýslum fer ég um byggðir og óbyggðir, hef dvalið og unnið þar á öllum tímum árs og þekki svæðið orðið giska vel. Eitt af því sem einkennir Þingeyjarsýslur eru vatnsmiklar lindir og lindarvötn. Berggrunnurinn er hriplekur, úrkoma sem fellur í hálendinu rennur eftir sprungum í berginu og þar sem aðstæður leyfa spretta fram lindir. Frægasta lindasvæðið er Mývatn, sjálft krúnudjásnið. Það eru fleiri stór og vatnsmikil lindasvæði, s.s. Herðubreiðarlindir, Lón í Kelduhverfi, lindirnar við Katastaði í Núpasveit og í Blikalónsdal á Sléttu, og svo Suðurá og Svartá í norðurjaðri Ódáðahrauns. Mig langar að beina athyglinni að Suðurá og Svartá.

Svartárurriði. Ljósmynd: Sigbjörn Kjartansson
Svartárurriði. Ljósmynd: Sigbjörn Kjartansson

Suðurá er ein vatnsmesta lindá landsins. Hún á upptök sín í Suðurárbotnum og fellur til norðurs og vesturs í jaðri Suðurárhrauns og í átt að Skjálfandafljóti. Á móts við Hrafnbjörg eða litlu norðar er ekki nema um 1 km á milli Skjálfandafljóts og Suðurár, báðar streyma norður en Suðurárhraunið skilur á milli. Þegar Suðurá hefur runnið um 15 km leið sameinast hún annarri lindá en nokkru vatnsminni sem fellur úr Svartárvatni og nefnist Svartá. Sameinuð Suðurá og Svartá ber heitið Svartá allt uns elfan rennur í Skjálfandafljót rétt norðan Bjarnastaða í Bárðardal, reyndar má greina bláan straum Svartár frá jökulvatni Fljótsins allt norður undir Lundarbrekku.

Þetta vatnakerfi er um margt einstakt á landsvísu. Ég vil nota líkinguna að Svartá sé „litla systir“ Laxár og margt er líkt með skyldum. Þetta eru lífrík vötn Svartá og Suðurá. Lindarvatnið er hlaðið steinefnum sem plöntur og þörungar nýta sér til vaxtar sem aftur eru fæða fyrir dýr eins og bitmý sem síðan er undirstaða öflugra fiskistofna og auðugs fuglalífs.

Urriðinn í Svartá er landsfrægur, þar hefur hann lifað í einangrun í þúsundir ára og með einkenni sem eru sérstök fyrir þennan stofn. Þetta eru fiskar sem verða mjög stórir og urriðaveiði mikilvæg hlunnindi heimamönnum alla tíð.

Svartárurriðinn er stórvaxinn fiskur og eitt af sérkennum hans er túrkisblár blettur aftan við augað. Ljósmynd: Pálmi Gunnarsson.
Svartárurriðinn er stórvaxinn fiskur og eitt af sérkennum hans er túrkisblár blettur aftan við augað. Ljósmynd: Pálmi Gunnarsson.

Fuglalífið er auðugt, sérstaklega er mikið af öndum, þarna verpa meðal annars húsönd, straumönd og gulönd allt tegundir á Válista.

Sérstaka athygli vekur húsöndin en stofn hennar hér á landi er lítill. Meginvarpstöðvarnar eru við Mývatn og Laxá, annars staðar er hún ekki árviss varpfugl nema við Svartá. Þetta eru hið minnsta tugir fugla sem halda til á ánni, mest neðan við útfallið úr Svartárvatni og á Svartá neðan við Hamarinn hjá Bjarnastöðum. Þegar árar illa við Mývatn og Laxá og fuglinn þar er í svelti leitar hann annað, þetta gerir húsöndin og einn af þeim stöðum sem flóttafuglinn sækir á er Svartá. Þannig að Svartá er ein af þeim stoðum sem tilvera húsandarinnar á Íslandi byggir á; áin er varpstöð og vetrardvalastaður og athvarf þegar sverfur að í Mývatnssveit og við Laxá.

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.
Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Virkjunaráform: Svartárvirkjun í Bárðardal

Af hverju þessi orð um Svartá? Jú, aftur eru komin upp á borð áform um að eyðileggja svæðið. Á áttunda áratugnum átti að taka Suðurá og Svartá norður heiðar í skurði og í Mývatn, sem betur fer var það stoppað. Seinna höfum við séð áætlun um Hrafnabjargavirkjun en þar er eða var ætlunin að taka Suðurá úr farvegi sínum og leiða í uppistöðulón við Hrafnabjörg. Þessir árar sofa aldrei því miður! Það nýjasta, framkvæmd sem á að hefjast 2017, er að stífla Svartá skammt sunnan við Víðiker, leiða ána í stokki nokkra kílómetra og hafa stöðvarhús norðan við Hamarinn! Hér er í raun boðuð eyðilegging árinnar, uppeldisstöðvar urriða eyðilagðar, skorið á gönguleiðir hans, eitt mikilvægasta búsvæði húsandarinnar á vatnasviðinu fyrir bí, o.s.frv.

Hvað ræður þessari framkvæmd, hvers vegna eru menn tilbúnir að skaða lífríkið á þennan máta? Svarið er einfalt, græðgi. Menn sem ekki vita aura sinna tal, en vilja samt peningahauginn tommu hærri áður en þeir halda yfir Styx, ráða ferðinni. Einkafyrirtæki stendur að verkefninu. Fyrst átti að sleppa við umhverfismat með því að skilgreina virkjunina rétt neðan við þau mörk sem kalla á slíkt. Það var stoppað hjá Skipulagsstofnun og nú er umhverfismati að ljúka.

Niðurstöður þess verða væntanlega kynntar í upphafi nýs árs [2017] og þá er tækifæri fyrir alla að gera athugasemdir. Tilgangur minn með skrifunum er sá að segja frá hvaða verðmæti eru í húfi og að hvetja alla „góða drengi“ til að standa upp og mótmæla þessari ósvinnu. Svona gerum við ekki!

— grein endar —

 

Ferli Skipulagsstofnunar

Á vef Skipulagsstofnunar má fylgjast með ferli umhverfismats á Svartárvirkjun í Bárðardal.

Þann 30. desember 2020 skilaði stofnunin áliti sínu.

Fyrir 23. október 2017 er skilafrestur: Athugasemdir um frummatsskýrslu Svartárvirkjun í Bárðardal

Í tillögu að matsáætlun kemur fram á bls. 7:

Algengustu tegundir á svæðinu voru straumönd, heiðlóa og þúfutittlingur. Þar á eftir komu grágæs, rauðhöfðaönd, húsönd, spói, hrossagaukur og skógarþröstur. Grágæsin er skráð á válista vegna fækkunar, straumönd og húsönd eru á válista sem tegundir í nokkurri hættu þar sem báðar þessar tegundir verpa hvergi í Evrópu utan Íslands.

Í viðauka 4. Andfuglar með frummatsskýrslu kemur fram í útdrætti skýrslunnar:

Vatnasvið Svartár og Suðurár er afar lífríkt og eru straum- og húsendur einkennandi fyrir fuglalíf þess. Utan Mývatns og Laxársvæðisins er vatnasviðið mikilvægasta búsvæði húsanda hérlendis. Fjöldi straumanda á vatnasviðinu bendir til að það sé með mikilvægari varpbúsvæðum tegundarinnar hér á landi. Hvorug tegundin verpir í Evrópu utan Íslands og báðar eru skráðar í viðauka II við Bernarsamninginn. Ísland ber því ríkulega ábyrgð á þessum tegundum skv. alþjóðlegum samningum og eru báðar skráðar á válista, húsönd sem tegund í hættu en straumönd sem tegund í nokkurri hættu. Fjöldi húsanda á vatnasviði Svartár og Suðurár uppfyllir viðmið um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði sem Ísland hefur skuldbundið sig til að vernda skv. Ramsarsamningnum.

Fjöldi straumanda liggur nærri þessu viðmiði. Á heildina litið er verndargildi vatnasviðs Svartár ogSuðurár því mjög mikið hvað fuglalíf varðar. Áhrifasvæði fyrirhugaðrar virkjunar er órjúfanlegur hluti af þeirri heild.

Áhrif fyrirhugaðrar virkjunar í Svartá á straumendur og húsendur munu að öllum líkindum tengjast minnkuðu fæðuframboði vegna skerts rennslis milli stíflu og stöðvarhúss. Áhrif virkjunar munu verða neikvæð fyrir straumendur á vatnasviði Svartár og Suðurár. Óvíst er þó hvort minnkað rennsli innan áhrifasvæðisins muni hafa áhrif á stofnstærð innan vatnasviðsins vegna þess að megin nýting þeirra á áhrifasvæðinu virðist vera yfir fartíma að vori. Ólíkt straumöndinni byggir húsöndin afkomu sína á vatnasviðinu árið um kring. Fjöldi húsanda sem finnast á áhrifasvæðinu að vori virðist stöðugri en straumanda og getur numið háu hlutfalli stofnsins innan vatnasviðsins. Þá eru heimildir um að enn hærra hlutfall stofnsins nýti svæðið þegar æti brestur á Mývatns- og Laxársvæðinu. Fyrirhuguð virkjun er því talin geta haft neikvæð áhrif stofnstærð húsanda á vatnasviði Svartár og Suðurár og um leið á landsvísu.

 

Þá er á kafli 5.4.6 Fuglar á bls. 23 í tillögu að matskýrslu:

… Þrjár tegundir voru taldar viðkvæmar fyrir truflun af framkvæmdum; fálki, straumönd og húsönd.  Byggingaframkvæmdir munu að miklu leyti fara fram að sumarlagi og hafa að öllum líkindum bein áhrif á varp einhverra fuglategunda á svæðinu. Einnig mun rennslisskerðing á kafla árinnar hafa áhrif á búsvæði og mögulega varp straumandar, sem er svokölluð ábyrgðartegund þar sem hún verpir hvergi í Evrópu utan Íslands. Við athugun í byrjun júní árið 2012 sáust 39 straumendur og þar af 16 pör, flestar innan áhrifasvæðis Svartárvirkjunar.

 

Aflað verður upplýsinga um staðsetningu fálkahreiðurs og ef það verður í ábúð á framkvæmdatíma verða framkvæmdir skipulagðar í samráði við sérfræðinga til að koma megi í veg fyrir neikvæðáhrif á varp. Nánar verður fjallað um þetta í frummatsskýrslu.

Spáð hefur verið fyrir um hvaða fuglategundir sé að finna á fyrirhugaðri strengleið út frá upplýsingum um gróðurlendi og fuglatalningu frá virkjunarsvæði auk almennrar reynslu fuglafræðings. Fyrirhugað er að gerð verði úttekt á fuglavarpi á strengleið þar sem valdir kaflar leiðarinnar verða gengnir, fuglar taldir og atferli kannað.

Fjallað verður um niðurstöður rannsókna og möguleg áhrif framkvæmda á fuglalíf í frummatsskýrslu, byggt bæði á fyrirliggjandi gögnum og frekari gögnum sem aflað verður um straumendur á Svartá og fuglatalningu á strengleið.

Þann 6. september 2016 féllst Skipulagsstofnun á tillöguna með athugasemdum og í Svartárvirkjun ákvörðun um matsáætlun má lesa í niðurstöðu lið 7:

Í frummatsskýrslu þarf að greina frá niðurstöðu mats á áhrifum á votlendi sem nýtur sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum, m.a. hversu stórt votlendissvæði kemur til með að raskast og hversu umfangsmikil votlendisskerðingin verður auk þess sem koma þarffram til hvaða mótvægisaðgerða á að grípa vegna þess rasks.

Verndarfélag Suðurár og Svartár

Stofnað hefur verið Verndarfélag Suðurár og Svartár og heldur félagið úti hóp á samfélagsmiðlinum Facebook.

Þann 26. apríl 2017 sendi félagið bréf til Umhverfis- og Auðlindaráðherra ásamt greinargerð, þar sem lagt er til að svæðið verði friðlýst.

Þá heldur félagið úti síðu á Facebook: Verndum Svartá sem hægt er að líka við og fá upplýsingar, án þeirrar skuldbindingar að gerast meðlimur í félaginu.

 

Síðast breytt: 11. janúar 2021.