Endurheimt búsvæða fiska og fugla

Möguleikar á endurheimt búsvæða fiska og fugla á Mýrum og nágrenni 2023-2024

Árið 2023 hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega breska fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands komu einnig að verkefninu.

Verkefnið var framhald verkefnis þar sem hafði verið gerð úttekt á vatnasvæði Kálfalækjar á Mýrum. Þar kom í ljós að framræsla votlendis hafði eyðilagt farleiðir fiska upp læki á svæðinu, auk þess að hafa slæm áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði þeirra. Aftur á móti fundust hrygningarsvæði urriða í einu tilviki í skurði en slíkt þaf að að hafa í huga við endurheimt svæðisins.

Hugmyndin var að stækka rannsóknarsvæðið svo að þá næði yfir Mýrar, Hnappadal og alla leið að ósi Straumfjarðarár fyrir neðan Snæfelssnesveg. Svæðið er tilnefnt til Náttúruminjaskrár af Náttúrufræðistofnun vegna búsvæða vað- og vatnafugla. Ásamt aðliggjandi fjörum og grunnsævi er það einnig skilgreint sem Alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (IBA) af BirdLife International. Vötn og lækir á svæðinu eru líklega mikilvæg búsvæði silungs og áls, en áli hefur fækkað mikið í Evrópu og er nú talinn vera í útrýmingarhættu.

Í verkefninu var sjónum beint að lækjum og vatnasvæðum sem orðið hafa fyrir áhrifum framræslu kortlagaðir með tilliti til búsvæða fiska, sérstaklega urriða og áls. Hindranir voru skrásettar og metið var hvaða áhrif endurheimt hefur á aðrar lífverur eins og fugla og gróðurfar. Mannfólkið var ekki heldur undanskilið en mikilvægt var að huga að landnýtingu og afstöðu landeigenda til endurheimtar. Ef endurheimt verður á svæðinu er mögulegt að aukin nýting fiskistofna verði í framtíðinni.

Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Þá aðallega með því að fjarlægða manngerðar hindranir eins og stíflur úr ám og lækjum. Möguleikar á endurheimt voru kannaðir og ef gott samstarf og valkostir eru fyrir hendi, er mögulegt að vinna verkefnið yfir á framkvæmdastig í samvinnu við landeigendur.

Nánar má lesa um verkefnið á ensku á síðu Open rivers programme.