Peatland LIFEline

Peatland LIFEline er yfirgripsmikið verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Samstarfsaðilar verkefnisins eru sjö talsins: Landbúnaðarháskóli Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Fuglavernd, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB). Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands en Fuglavernd spilar stóra rullu í því og leiðir einn vinnupakka þess.

Verkefnið er að mestu fjármagnað af LIFE-sjóðnum, sem er hluti af umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið hófst formlega þann 1. september 2025 og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóðurinn til 75% fjárhæðarinnar, eða um 6 milljónir evra sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna. 

Mun styrkja yfirsýn og auka þekkingu

Markmið verkefnisins Peatland LIFEline er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsalofttegunda. Áhersla er lögð á vistgerðina starungsmýravist sem hefur mjög hátt verndargildi og á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi en það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll. Einnig verður sjónum beint að evrópska álnum en hann er í útrýmingarhættu.   

Votlendi á Íslandi hefur um margt sérstöðu miðað við votlendi annars staðar í Evrópu, meðal annars vegna eldvirkni en þættir eins og ungur berggrunnur, áfok og eldgos hafa áhrif á eðli og eiginleika þeirra. Þéttleiki fugla er mikill og stofnar nokkurra tegunda fugla byggja afkomu sína að verulegu leyti á þessum svæðum. Vonir standa til að verkefnið muni styrkja yfirsýn og auka þekkingu á votlendissvæðum landsins, ástandi þeirra og helstu áskorunum við endurheimt. Auk þessa er mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Þrjár tegundir fugla í forgrunni

Þær þrjár tegundir fugla sem um ræðir eru jaðrakan, stelkur og lóuþræll. Jaðrakan (Limosa limosa) verður einkennisfugl verkefnisins. Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri. Kvenfuglinn er litdaufari og stærri en karlfuglinn. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri. Jaðrakan verpur í Evrópu og sums staðar víða í Asíu allt til Kyrrahafs. Hann er algengur varpfugl hér á landi. Íslenskir jaðrakanar heyra til sérstakrar deilitegundar, L. l. islandica, sem verpur nær eingöngu hér. Jaðrakan er alger farfugl, hefur vetursetu á Bretlandseyjum og á vesturströnd meginlands Evrópu, frá Hollandi suður til Spánar. 

Jaðrakan

Stelkur (Tringa totanus) er meðalstór, hávær vaðfugl. Á sumrin er hann grábrúnflikróttur að ofan og ljósari að neðan, minnst flikróttur á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi, stélið er þverrákótt. Hann er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfugl er brúnleitur að ofan, með gula fætur. Kynin eru eins. Stelkur er varpfugl í Evrópu og Asíu austur til Kína. Hann er hér algengur og útbreiddur varpfugl á láglendi. Íslenskir fuglar teljast til deilitegundarinnar T.t. robusta sem verpur nær öll hér á landi.

Lóuþræll (Calidris alpina) er smávaxinn vaðfugl sem einkennir votlendi á sumrin en fjörur síðsumars. Á sumrin er hann gulbrúnn og svartflikróttur að ofan en ljósari að neðan með stóran, svartan blett eða svuntu neðarlega á bringunni og aftur á kvið. Á flugi má sjá mjó hvít vængbelti. Gumpur er hvítur með dökkri rák í miðju og stél grátt, einnig með svartri miðrák. Á veturna missir hann svörtu svuntuna. Ungfugl er svuntulaus með áberandi rákótta bringu. Kynin eru eins. Hann er félagslyndur utan varpstöðva og er þá oft í stórum hópum á leirum og söndum með öðrum vaðfuglum. Hann sést oft í fylgd með lóum á vorin og dregur af því nafn sitt, ásamt því að bera svipaðan fjaðurham og lóan. Lóuþræll verpur einkum í heimskautalöndum umhverfis norðurhvel jarðar. Hann er alger farfugl og hefur vetursetu í V-Afríku. 

Kynningar- og samskiptastjóri verkefnisins hjá Fuglavernd er Bára Huld Beck (barahuld (hjá) fuglavernd.is).

 

Heimildir: 

  • Náttúrufræðistofnun
  • Fuglavefurinn