Endurheimt votlendis

Mossy Earth, samtök sem styrkja Fuglavernd í endurheimt búsvæða

Frá árinu 2023 hefur Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega breska fuglaverndarfélagið (RSPB) kannað möguleika á endurheimt búsvæða fiska og fugla á Mýrum á Vesturlandi en Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands komu einnig að því verkefni í samstarfi við m.a. Open Rivers. Svæðið er fyrir margt mikilvægt fyrir mófugla en það er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði af BirdLife International.

Með styrk frá endurheimtarsjóðnum Mossy Earth gefst Fuglavernd ásamt Landi og skógi og Hafrannsóknarstofnun nú tækifæri til að endurheimta votlendi á þessu svæði en áhersla verður lögð á tvö mikilvæg vatnasvið: Kálfalæk og Blöndulæk. Markmiðið með verkefninu er að opna farleiðir á þessum tveimur lykilvatnasviðum votlendisins á Mýrum, væta aftur framræst mýrlendi og endurheimta rennsli sem tengjast alla leið út á haf.

Þetta verkefni er spennandi tækifæri til að snúa við hluta af vistfræðilegu tjóni á Mýrum með því að tengja ferskvatnsbúsvæði aftur saman og endurlífga mýrlendi. Endurheimt þessa forna votlendis styður ekki aðeins við staðbundið dýralíf heldur einnig mikilvægar varpslóðir fyrir margar farfuglategundir – sem hefur áhrif langt út fyrir landsteinana. 

Í upplýsandi myndbandi á vegum Mossy Earth má fræðast frekar um verkefnið en í því er farið yfir fyrirhugaða endurheimt á fyrsta áfanga Kálfalækjarvatnasviðs auk Blöndulækjarvatnasviðs sem mun meðal annars greiða álum leið um votlendið, auka fjölda fugla sem sækja í votlendi sem búsvæði og auka fjölbreytni lífríkis sem að þrífst þar. Einnig má nálgast frekari upplýsingar um framkvæmdina á vefsíður Mossy Earth.