Skógarþröstur

Skógarþröstur
Skógarþröstur. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Skógarþrösturinn ber fræðiheitið Turdus iliacus og er af þrastaætt (Turdidae).

Fræðiheiti: Turdus iliacus.

Ætt: Þrastaætt (Turdidae).

Einkenni: Á skógarþröstum er áberandi ljós breið rák ofan við auga, svokölluð brúnarák, einnig áberandi ryðrauður liturinn á síðunni, sem teygir sig á undirvæng og er mjög áberandi þegar fuglinn er á flugi.

Búsvæði: Skógarþröstur er einn af algengastu garðfuglum á Íslandi og flestir ættu að þekkja sönginn hans. Skógarþrestir verpa í skógum og kjarri, í görðum og þar sem þó einhvern trjágróður er að finna.

Far: Fyrstu skógarþrestirnir koma yfirleitt til landsins í byrjun apríl. Skógarþrestir yfirgefa landið í október. Fuglinn er að mestu farfugl en líklega hafa fáein þúsund nú vetrardvöl, flestir í bæjum á Suðvestur hluta landsins. Eitthvað er um að þrestir hafi vetursetu í bæjum í hinum landshlutum. Vetrarstöðvar eru á Bretlandi, Írlandi, vesturhluta Frakklands og Íberíuskaga.

Varptími: Flestir hefja varp í fyrri hluta maí og liggja á eggjunum í tæpan hálfan mánuð. Ungar eru svipaðan tíma í hreiðri. Þeir geta verpt 2-3 sinnum yfir sumarið.

Fæða: Ýmsir hryggleysingjar s.s. ánamaðkar, fiðrildalirfur. Allskonar ber, reyniber og rifsber eru mjög eftirsótt af skógarþröstum.

Stofnstærð: Skógarþrastastofnin er talinn um 165.000 pör (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017) og er það í samræmi við eldri ágiskun upp á  100.000−200.000 pör (Asbirk o.fl. 1997).

EVRÓPA (VARPPÖR) ÍSLAND (VARPPÖR) ÍSLAND VETUR (EINSTAKLINGAR)
16.000.000-21.000.000 165.000 1.000-5.000

Hreiðurhús fyrir þresti

Í vefverslun Fuglaverndar eru til sölu hreiðurhús fyrir þresti til styrktar starfsemi félagsins.