Rjúpa

Rjúpa
Rjúpa. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Rjúpan ber fræðiheitið Lagopus muta og er af orraætt (Tetraonidae).

Fræðiheiti: Lagopus muta.

Ætt: Orraætt (Tetraonidae).

Einkenni: Að sumri er rjúpan brúnyrjótt að lit en vængir hvítir. Á veturna eru rjúpurnar alhvítar nema karrinn er með svarta grímu. Karlfuglinn með áberandi rauðan kamb á vorin og á varptíma.

Búsvæði: Búsvæði rjúpunnar eru lyngmóar, kjarrlendi, skógar og gróin hraun. Leitar svolítið inn í garða að vetrarlagi.

Rjúpa
Rjúpa. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Far: Rjúpan er staðfugl. Hún finnst um land allt, en er algengust í Þingeyjarsýslum. Stofnstærð sveiflast allreglubundið og um 10 ár líða á milli hámarka, allt að tífaldur munur getur verið á stofnstærð í lágmarki og hámarki. Heimkynni rjúpu eru allt umhverfis norðurheimskautið.

Varptími: Seinni hluti maí og fram í júní. Ungar verða fleygir á um 80 dögum.

Fæða: Nær eingöngu úr gróðurríkinu. Nokkuð breytileg eftir árstíðum. Sprotar og brum af víði, fjalldrapa, birki og beitilyngi, ber og fræ ásamt laufblöðum t.d. af holtasóley.

Stofnstærð: Stofnstærð rjúpunnar er mjög breytileg, bæði innan árs og á milli ára og tímaskeiða. Í lok sumars er rjúpnastofninn að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum stærri en um vorið.

Breytileiki í stofnstærð á milli ára er mun meiri en innan árs og stofninn rís og hnígur með reglubundnu millibili og um 10-12 ár hafa verið á milli hármarksára. Á einstökum rjúpnatalningasvæðum hefur munur á hámarks- og lágmarksárum verið allt upp í 25-faldur.

Í bestu rjúpnaárum telur hauststofn rjúpunnar yfir milljón einstaklinga en innan við tvö hundruð þúsund fugla í þeim lökustu. Einnig hefur verið munur á rjúpnafjölda á milli tímabila.

Á fyrri hluta 20. aldar var meira af rjúpu en verið hefur síðustu áratugi og þá taldi rjúpnastofninn 3-5 milljónir fugla í hámarksárum. Friðun rjúpunnar 2003 og 2004 var sett til að sporna gegn hnignun stofnsins.

Meira: Rjúpa (Lagopus muta)

EVRÓPA (VARPPÖR) ÍSLAND (VARPPÖR) ÍSLAND VETUR (EINSTAKLINGAR)
430.000-1.400.000 50.000-200.000 1.000.000