Barrfinka

Barrfinka karlfugl
Barrfínka, karlfugl

Fræðiheiti: Cardulis spinus.

Ætt: Finkuætt (Fringillidae).

Einkenni: Frekar lítil finka, grængul að lit, karlfuglinn er skrautlegri að lit en kvenfuglinn. Hann er með svartan koll og áberandi gul vængbelti, gulur gumpur (ofan við stélið) og einnig stéljaðarreitir. Kvenfuglinn dauf grængulur og rákóttur, vængbelti ekki eins áberandi og hjá karlfuglum. Ungfuglar eru svipaðir kvenfuglum að lit en eru meira brúnleitir að ofan og mun rákóttari. Þær eru meira áberandi að ofan en neðan.

Búsvæði: Finnst bæði í barrskógum og blönduðum skógum (bæði barr- og lauftré) á meginlandi Evrópu. Er byrjuð að verpa í þéttbýli þar sem er að finna grenitré t.d. í Englandi.

Barrfinka kvenfugl
Barrfinka kvenfugl. Ljósmynd Örn Óskarsson

Far: Farfugl á norðlægum slóðum. Flökkufugl og ræðst það af fæðuframboði, ef lítið er af fæðu er lagst í flakk. Í sumum árum hafa komið til landsins margir fuglar og í kjölfarið á slíkri göngu verptu barrfinkur á Tumastöðum undir lok síðustu aldar. Haustið 2007 og vorið 2008 kom einnig mikið af barrfinkum og verptu þær víða um land sumarið 2008. Með aukinni skógrækt og hærri barrtrjám verða meir líkur á því að barrfinkur ílendist á Íslandi.

Varptími: Í Evrópu er hann frá miðjum mars og þar til í byrjun júní, það fer eftir fæðuframboði.

Fæða: Frææta, tekur grenifræ og er hún mjög háð því á varpstöðvunum. Einnig birki-, elrifræ og fræ af ýmsum plöntum, um varptímann tekur hún eitthvað af hryggleysingjum. Hægt er að fá barrfinku í fóður t.d. með því að gefa sólblómafræ.

Stofnstærð:

EVRÓPA (VARPPÖR) ÍSLAND (VARPPÖR) ÍSLAND VETUR (EINSTAKLINGAR)
10.000.000-18.000.000 0-4 0-tugir