Fýlsungar í lífshættu

In English: Fulmar chicks in danger

Fýlsungar eru að yfirgefa hreiður frá miðjum ágúst fram í miðjan september. Þeir svífa frá hreiðursyllunni sinni  og ná stundum ekki alla leið út að hafi og lenda þá á landi milli varpstöðva og sjávar. Eftir gott sumar er nú urmull af þeim í Mýrdalnum og vafalaust víðar.

Fæstum fýlsungum þarf að bjarga. Þeir spjara sig oftast þar sem þeir hafa lent; á söndum, túnum, engjum, lónum
eða viðlíka ,,flugbrautum”. Þeir léttast á nokkrum dögum og verja tíma sínum við að styrkja vængi og þegar þeir fá góðan  byr undir báða vængi þá komast þeir á flug.
Þeir sem lenda á bílastæðum, vegum, í skógi, háu grasi og  lúpínubreiðu gætu þurft að aðstoð við að komast áfram út á haf. Sama er að segja um fýlsunga sem að lenda í skurðum og við girðingar.

ATH: Þegar fýlsungar verja sig þá spýja þeir eða æla lýsiskenndu magainnihaldi sínu. Bunan getur verið
hátt í 2 m á lengd. Það er vissara að varast að lenda í bununni því það er erfitt að ná lýsi úr fötum. Með því að ná taki á aftanverðum hálsi fýlsunga má „tæma“ þá af spýju áður en þeir eru meðhöndlaðir frekar.

Fýlsungi í hreiðri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

 

EF ÞAÐ ÞARF AÐ FANGA FÝLSUNGA t.d. í þéttbýli, skóglendi, bílastæði, lúpínubreiðu eða af vegi þá er best að vera með réttan útbúnað.

Starfsmenn Kötlujarðvangs gerðu stutt leiðbeiningarmyndbandum hvernig fanga skal fýlsunga.

FÖT: Föt sem má fórna í fýla-spýju, hanskar ef vill.  Áberandi lit á fatnaði ef verið er við vegi eða gul viðvörunarvesti.

VERKFÆRI

 

HVAR Á AÐ SLEPPA FÝLSUNGA?
  • Alls ekki í sandfjöru þar sem er brim, þá velkjast þeir bara um og drepast.
  • Best er  að sleppa þeim þar sem þeir geta náð að svífa niður á sjávarflöt eða á slétt land þar sem þeir geta þjálfað vængina.
  • Lygnar ár og víðir ósar koma til greina en varast ber að sleppa þeim í straumharðar jökulár. Ósar eru tilvaldir því þar ná fýlsungarnir  að synda og æfa vængjatökin og jafnvel ná sér á flug eða  komast í fallvatnið sem rennur úr ósunum.

Sleppistaðir í kringum Mýrdal og undir Eyjafjöllum:

Dyrhólaey (neðri eyjan),  Dyrhólaós, lónin hjá Höfðabrekku og Holtsós. Skógaá.

Sandar sunnan lúpínubreiða.

HEIMAHAGAR

Fýlsungar eru stríðaldir af foreldrum sínum svo þeir verða of þungir til flugs. Fýlavarp hefur teygt sig lengra inn til landsins, fjær sjó en hentugt er fyrir fýlsunga. En fýlum hefur fjölgað á s.l. áratugum og fýlahjón leita sér að góðu hreiðurstæði í björgum.
Nokkrar ástæður eru fyrir vali á björgum fjarri sjó. Þar má telja að sjóbjargastæðin eru frátekin, viðkomandi fýll ólst upp á syllu t.d. í Markarfljótgljúfrum og leitar heim.
Fýlar geta orðið allt að 60 ára gamlir og geta komið upp einum unga árlega.

Við þiggjum með þökkum ábendingar um góða sleppistaði fýlsunga um land allt.

Fýlsungaplakat  á íslensku og ensku frá Fuglavernd  sem má prenta út og hengja upp eða dreifa rafrænt

Fýlsungaplakat á íslensku frá Kötlu Jarðavangi  sem má prenta út og hengja upp eða dreifa rafrænt

Fýlsungaplakat á ensku frá Kötlu Jarðavangi  sem má prenta út og hengja upp eða dreifa rafrænt

Meiri fróðleikur um fýla 

Enn meiri fróðleikur

Viðtal við björgunarfólk fýlsunga í Landanum árið 2021 sem sýnir hvernig björgun fer fram

 


Viðvörunarskilti Vegagerðarinnar