Rannsóknir á fuglameðafla við grásleppuveiðar
Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.
Til að varpa ljósi á umfang fugladauða í tengslum við netaveiðar á hrognkelsum, Cyclopterus lumpus, við strendur Íslands hefur Fuglavernd staðið fyrir rannsóknum í tvígang um borð í grásleppubátum og þriðja rannsóknin sem Fuglavernd gerði var til að skoða hvort ákveðin tegund af “fuglahræðum”, LEB-baujur, hefðu fælingarmátt.
Fyrsta rannsóknin var árið 2015 og þá fóru rannsóknarmenn í 12 veiðiferðir á grásleppubátum á mismunandi veiðisvæði við landið og skrásettu fjölda og tegundir fugla sem slæðst höfðu í netin sem meðafli. Seinni rannsóknin var árið 2016 og hlutum við þá styrk frá David & Lucile Packard Foundation, þá var farið í 31 veiðiferð. Við réðum Biopol til að aðstoða okkur við framkvæmdina bæði árin en Marine Task Force á vegum BirdLife International hjálpaði okkur að vinna úr niðurstöðunum. Alls voru átta fuglategundir skrásettar en þrjár þeirra, teista Cepphus grylle, æðarfugl Somateria mollissima og dílaskarfur Phalacrocorax carbo, voru 90% af heildarfjöldanum bæði árin. Gögnin sem rannsóknarmenn öfluðu voru notuð til að meta tíðni meðafla og heildarmagn, auk áhrifa á viðkomandi tegundir.
Í þriðju rannsókninni 2022 tóku alls 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt og samþykktu þeir að prófa svokallar LEB-baujur (looming-eyes buoys – sjá mynd neðar) á netin sín. Þessar baujur voru prófaðar í Eystrasaltinu fyrir tveimur árum og fældu þær á marktækan hátt nokkrar tegundir kafanda frá netunum. Baujurnar er festar meðfram einni af netatrossunum sem eru lagðar út en aðrar trossur eru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum.
Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana sem fóru fram í Eystrasaltinu fyrir tveimur árum, en þá þóttu þær fæla frá andartegundir. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina. Þessi rannsókn var styrkt af MSC Ocean Stewardship Fund, réðum Biopol ehf aftur til að framkvæma rannsóknina og Marine Task Force á vegum BirdLife International aðstoðaði okkur við að vinna úr niðurstöðunum.
Til þess að gera þessar rannsóknir að veruleika höfum við fengið Landssamband smábátaeiganda í lið með okkur en einnig höfum við fengið að borðinu Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu til skrafs og ráðagerða, og matvælaráðuneytið. Aðrir hagsmunaaðilar eru ISF (Icelandic Sustainable Fisheries) sem hafa það að markmiði að gera allar fiskveiðar Íslendinga sjálfbærar.
Ýmsir tenglar
17. 03. 2017 Fundur um fuglameðafla við grásleppuveiðar
10.12.2016 Tengill á greinina: MSC Global Imapacts Report 2016: Gillnets and guillemots Case Study
Síðast breytt: 12.12.2022