Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.
Verndarfélag Svartár og Suðurár heldur úti síðu á Facebook, Verndum Svartá, en uppi eru áform um Svartárvírkjun, allt að 9,8 Mw virkjun. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar er nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun.
Skilafrestur athugasemda er 23. október 2017.
Hægt er að gera athugasemdir og koma ábendingum á framfæri við Skipulagsstofnun með því að senda tölvupóst á netfangið: skipulag@skipulag.is eða senda bréf stílað á:
Skipulagsstofnun
b.t. Sigurðar Ásbjörnssonar
Borgartúni 7b
105 Reykjavík
Athugasemdir
Mikilvægt er að sem flestir skili inn athugasemdum, í eigin nafni og ekki aðeins náttúruverndarsamtök.
Hér neðanmáls er hugmynd að athugasemdum sem öllum er heimilt að styðjast við. Aftan við þær er skeytt greinargerð Árna Einarssonar “Svartá og Suðurá í Bárðardal-Greinargerð”, grein Viðars Hreinssonar “Verndun Svartár/Suðurár” og grein Börre Skodvins “Value of Nature”. Vísað er til þessara greina í athugasemdum.
Í þessum hugmyndum eru teknir fyrir nokkrir þættir af mörgum í matsferlinu. Þeir sem vilja geta tekið ákveðna þætti fyrir eða stuðst við skjalið eins og þeim hentar best yfirhöfuð. En auðvitað með sínum eigin tilbrigðum!
Umhverfisáhrif á virkjað svæði Svartár – Hugmyndir að athugasemdum
Búsvæðavernd og tegundavernd
Tvær meginstoðir í stefnu Fuglaverndar eru búsvæðavernd og tegundavernd. Vernd Svartár í Bárðardal fellur í báða flokkana, sjá Verkefnin> Svartá í Bárðardal.
Húsönd, straumönd, gulönd og fálki eru allt fuglategundir á válista. Húsönd og straumönd njóta sérstakrar verndar Viðauka II skv. Bernarsamningnum og eru ábyrgðartegundir okkar Íslendinga.
Ramsarsamningurinn snýr að verndun votlendis, en votlendi sem og eldhraun sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu njóta sérstakrar verndar laga um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn beri til. Reglugerð 252/1996 kveður á um dvöl manna við hreiður t.d. fálka og röskun þeirra.
Fyrirhugað virkjanasvæði Svartár er innan svæðis sem er í verndarflokki 3. áfanga rammaáætlunar (Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða) en nær út fyrir það svæði ef fyrir valinu verður að plæja niður jarðstreng um 47 km leið yfir heiðar og koma rafmagninu niður í Laxárvirkjun til dreifingar.
Gagnlegir tenglar
– Frummatsskýrsla Svartárvirkjunar á vef Verkís, ásamt viðaukum
– Bernarsamningurinn, um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu.
– Ramsarsamningurinn, um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf.
– Rammaáætlun, 3. áfangi, kort af verndarsvæðum, sjá Skjálfandafljót
– Reglugerð um friðun tiltekinna villtra fuglategunda 252/1996