Fuglavernd hefur gefið út bókina Væri ég fuglinn frjáls, fyrstu skrefin í fuglaskoðun.
Allir grunnskólar landsins sem eru með 5. bekk hafa nú fengið að gjöf bekkjarsett af bókinni, til þess að efla náttúrufræðikennslu en það er eitt af markmiðum Fuglaverndar. Viðtökur við bókinni hafa vægast sagt verið frábærar, hvarvetna höfum við mætt miklu þakklæti fyrir gjöfina og kennarar hafa tekið nýju námsefni fegins hendi.
Þá fengum við sérstakt hrós fyrir umbúnað sendinganna, en við endurnýttum pappakassa og dagblöð sem umbúðir sendinganna til grunnskólanna.
Í samvinnu við Menntamálastofnun var bókin kynnt á dögunum á málþingi um náttúrufræðimenntun og þaðan er sömu sögu að segja, viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum.