Ársskýrsla Fuglaverndar — innsýn í starf félagsins

Ársskýrsla Fuglaverndar var flutt á aðalfundi 4. apríl s.l. Fjallað er um starfsemi félagsins, fjárhag, eignir, mannauð og ríkulegt starf félagsins og samstarf við félög og stofnanir innan- og utanlands.

Fuglavernd eru óhagnaðardrifin náttúruverndarsamtök, sem stofnuð voru 1963. Í árdaga félagsins var áhersla lögð á verndun arnarins en í dag er tilgangur félagsins verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir. Starfsemi félagsins einskorðast þó ekki við þessa hópa og eru engar fuglategundir eða -búsvæði undanskilin. Félagið leggur áherslu á fagleg vinnubrögð og hefur í starfi sínu ávallt hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og alla alþjóðlega samninga á sviði náttúruverndar sem Ísland hefur fullgilt eða skipta máli fyrir fuglafánu landsins.

Til að ná markmiðum sínum hefur félagið lagt áherslu á eftirfarandi atriði í starfsemi sinni:
● Fræðsla til almennings um fuglalíf landsins og hættur sem að því steðja.
● Samstarf við innlend og erlend fugla- og náttúruverndarsamtök og stofnanir, sem hafa svipuð
markmið og Fuglavernd.
● Rannsóknir á fuglum og búsvæðum þeirra.
● Aðhald gagnvart stjórnvöldum landsins og öðrum aðilum í þeim málum sem lúta að markmiðum
félagsins.
● Beinar aðgerðir í samræmi við markmið Fuglaverndar.
● Umsjón með mikilvægum fuglasvæðum sem félagið á beina aðild að, ýmist með sérstökum
samningum eða eignarhaldi.
● Efling félagsins, meðal annars með fjáröflun og fjölgun félaga.

Félagar og aðrir velunnarar Fuglaverndar eru hvattir til að lesa skýrsluna og kynna sér starf félagsins.

 

Vorverk í Vatnsmýrinni 2024 undir bláhimni

Laugardaginn 6. apríl mættu hinir frábæru sjálfboðaliðar Fuglaverndar í Vatnsmýrina í Reykjavík og tóku til hendinni.  Menn sammæltust um að minna rusl var þetta vorið í mýrinni en mörg vor og alls engin kóvíd-gríma fannst. Ein líkleg skýring á minna ruslmagni var að lægðir þennan vetur höfðu verið færri svo að minna rusl var á ferðinni.

Sjálboðaliðar Fuglaverndar eru að sönnu ómissandi  og eru allir félagar að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir  þegar við auglýsum eftir sjálboðaliðum.

 

 

 

 

Votlendi og mikilvægi þeirra

Vernd og endurheimt votlendis er eitt af áhersluatriðum í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.  Ágústa Helgadóttir líffræðingur og verkefnastjóri endurheimtar votlendis hjá Landi og skógi var í viðtali hjá morguvaktinni á Rás 1. Land og skógur er í samstarfi við Fuglavernd um endurheimt votlendis.

Hér má lesa um könnun á  möguleikum í endurheimt landslags- og sjávarheilda sem er samstarfsverkefni Fuglaverndar, Lands og skóga, RSPB og ELSP

Hér má hlusta á viðtalið við Ágústu  sem hefst á 01:26:00

Lóþræll. ©Alex Máni Guðríðarson

Fuglar og votlendi – Viðtal við Aron Alexander Þorvarðarson um niðurstöður meistararitgerðar hans

Ljósmynd: Alex Máni Guðríðarson.

Á Íslandi er að finna fjölmörg ólík votlendi sem eru mismunandi að stærð og sem m.a. standa undir eða styðja við stofna yfir fimmtíu fuglategunda. Þar af ber Ísland stóran hluta af heimsstofni tíu þeirra. Núverandi löggjöf gerir einungis ráð fyrir að þau votlendi sem ná tveimur hekturum að flatarmáli njóti verndar. Þessi löggjöf endurspeglar það viðhorf sem var algengt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að stærri verndarsvæði skili meiri árangri við náttúruvernd en smærri. Þetta viðhorf hefur verið mjög umdeilt og talsvert rannsakað síðustu hálfa öldina. Umræður um það hafa á ensku gengið undir heitinu „the SLOSS debate”, sem stendur fyrir “single large or several small” (eitt stórt eða mörg lítil). Þetta verkefni kannar réttmæti stærðarmarka í núverandi náttúruverndarlögum á Íslandi með því að skoða tengsl þéttleika og fjölbreytni fugla við flatarmál votlendisbletta á suður-, suðvestur- og vesturhluta landsins. Niðurstöðurnar sýna að þéttleiki fugla var hæstur á minnstu votlendisblettunum og minnkaði með aukinni stærð votlendis. Aftur á móti jókst heildarfjöldi fugla og fjölbreytni fuglalífs með aukinni stærð votlendisbletta. Þetta sýnir að minni votlendisblettir, þar á meðal blettir vel undir tveimur hekturum, geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fuglalíf landsins og að horfa verður til samhengis en ekki eingöngu flatarmáls þegar teknar eru ákvarðanir um vernd votlendis. Skilningur á mikilvægi þess að aðgerðir í þágu náttúruverndar hafi bæði jákvæð áhrif líffræðilega fjölbreytni og loftslag eru að aukast og þær niðurstöður sem hér eru kynntar nýtast í þeim tilgangi.

Viðtal við Aron Alexander er að finna á hér á spilara Rásar 1 á 01:27:00 

Fullorðinn fálki, 12 ára gamall karlfugl, á flugi yfir hreiðri sínu sumarið 2023. Þessi fálki var merktur sem ungi í hreiðri sumarið 2011. Vorið 2014 fannst hann, þá þriggja ára gamall, paraður og með fjóra unga í hreiðri á óðali um 17 km frá æskuheimili sínu. Hann hefur búið á þessu óðali allar götur síðan og hann og maki hans komu upp fjórum ungum í vor. – Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson

Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019.

Fullorðinn fálki, 12 ára gamall karlfugl, á flugi yfir hreiðri sínu sumarið 2023. Þessi fálki var merktur sem ungi í hreiðri sumarið 2011. Vorið 2014 fannst hann, þá þriggja ára gamall, paraður og með fjóra unga í hreiðri á óðali um 17 km frá æskuheimili sínu. Hann hefur búið á þessu óðali allar götur síðan og hann og maki hans komu upp fjórum ungum í vor. – Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson

 

Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019 og varpstofninn vorið 2023 var sá minnsti sem mælst hefur frá upphafi rannsókna. Samfelld fækkun fálka frá 2019 kemur á óvart. Viðkoma fálka var mjög góð bæði 2018 og 2019. Reyndar var árið
2018 það besta frá upphafi rannsóknanna, en þá komust á legg 104 fálkaungar á rannsóknasvæðinu.
 Fréttina má lesa á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Skemmtileg myndasýning um fuglana í borginni

Árni Árnason félagi í Fuglavernd sagði frá fuglunum í borginni í máli og myndum. Hann hefur ljósmyndað fugla í garðinum heima hjá sér í Vesturbæ Reykjavíkur,  við Tjörnina,  Vatnsmýrina, úti á Nesi og við Elliðavatn.  Fróðlegt var að sjá þessar fínu myndir og heyra sögur af viðfangsefninu.

Kattakragar – minnkum veiðar katta

Kattakragar
Frábærir kragar sem að gera ketti sýnilegri fyrir fugla.
Kettir eru mjög duglegir að leynast, sama hvort þeir eru bröndóttir, skjöldóttir, mjallahvítir eða annara lita þá geta þeir gert sig nær ósýnilega með því einu að liggja grafkyrrir jafnvel á miðri grasflöt. Fuglar sjá liti mjög vel og með því að setja litríkan kattakraga á köttinn þá er búið að auka líkur á því að fuglarnir komi auga á köttinn áður en það er um seinan.
Á kattakrögunum sem að Fuglavernd selur er endurskinsrönd á ystu brún kragans. Endurskinsröndin getur bjargað köttum frá því að verða undir bíl í skammdeginu en endurskinið sést í nær 100 m fjarlægð í ljósgeisla bílsins. Endurskinmerkislaus köttur sést ekki fyrr en hann er stokkinn út á götu framfyrir bílinn, og það getur verið of seint fyrir kisa, jafnvel þó kettir kváðu eiga níu líf.

Sjá nánar í vefverslun Fuglaverndar

 

Kattakragi - litríkar bylgjur
Kattakragi með litríkum bylgjum.

Fróðlegt myndakvöld um farleið fugla um Texas

2. nóvember s.l. sýndu Edward Rickson og Sigmundur Ásgeirsson myndir hins síðarnefnda frá átta daga ferð þeirra félaga um Texas. Í máli og myndum fræddu þeir áhorfendur um hina s.k. miðfarleið fugla um Ameríku. Þeir sáu um 200 tegundir fugla á átta dögum og kynntust ýmsu fólki með sama áhugamál og þeir; fugla og ljósmyndun fugla. Þeir félagar tóku eftir  að hlutfall karla og kvenna á þessum slóðum var nokkuð jafnt hjá þeim sem að munduðu sjónauka eða myndavélar að fuglunum.

Eikarskríkja. Ljsm. Sigmundur Ásgeirsson