Mannvirki í Friðlandi í Flóa- viðhald

Þetta vor hefur verið farið í  þrígang  í Friðland í Flóa til að sinna viðhaldi mannvirkja. Sumardaginn fyrsta mættu þrír sjálfboðaliðar á vettvang og skröpuðu og grunnuðu allt fuglaskoðunarhúsið að utan. Enn fremur var borið á rampinn sem leiðir að húsinu og pallinn við húsið. Veðuir var þurrt og gott en það vor 10-15 metrar allan daginn. Þurftum að ríghalda í dúkinn þegar hádegisverður var snæddur.  Það var ánægjulegt að sjá að einhver hafði skipt út hlerunum á vestur- og austurglugga hússins, en þeir voru illa farnir af veðrun. Það er verst að við vitum ekki hver gerði það og auglýsum við eftir hlerasmiðnum hér með.

Fyrsta maí mættu sex manns í Friðlandið til að halda áfram viðhaldi. Þetta var veðurfarslega sérkennilegur dagur. Þegar sjálfboðaliðar vöknuðu þann morgun á Suðvesturlandi, rigndi og enn rigndi þegar ekið var austur um Þrengslin. Fuglavernd hafði fengið að geyma málningardótið á Eyrarbakka og sá er afhenti okkur það hafði vaknað í úrkomu á Selfossi og hugsað að ekki yrði gott að mála í dag. En viti menn, það var þurrt og frábært málunarveður allan daginn í Flóanum. Það gekk á með skúrum allan daginn á Hellisheiði og austan við Flóann. Uppsveitirnar héngu þurrar líka.

 

Báðir þessir vinnudagar voru frábærir að öllu leyti. Mannskapurinn kom miklu í verk og aðalmarkmiðinu var náð: Að grunna og mála húsið. Einnig náðist að bera á stiga, hlið og smá á kamarinn. Gönguleiðið í Friðlandinu var stikuð og var  það lokaverk dagsins.

Nú lítur húsið vel út með heilum hlerum fyrir glugga. Pallurinn er olíuborinn sem og bekkir og borðið sem standa á honum.  Rampurinn er að mestu olíuborinn, svona 3 metrar eftir. Næsta verkefni í sambandi við húsið er að mála aðra umferð. Það þarf einnig að klára að bera á rampinn.

Tveir sjálfboðliðar fóru í Friðlandið 12. maí til að sinna brúarviðhaldi. Á stikuðu gönguleiðinni um Friðlandið eru fjórar brýr. Þær voru settar niður fyrir 2 árum þegar langur frostakafli var að vetri. Þær eru á fótum en eru einnig festar niður með járnstaurum og vír. Þrátt fyrir öflugar festingar höfðu tvær brýr farið á flot á stórstreymi og í lægð, að öllum líkindum þeirri sem innihélt þrumur og eldingar í vetur. Önnur brúin er orðin undin en skilar sínu hlutverki sem brú og hin er í lagi en var færð á sinn stað og fest niður að nýju.

Af ofangreindu má sjá að því fylgir viðhald að vera með mannvirki og sjálfboðaliðar Fuglaverndar eru ómetaleg auðlind félagsins hvað varðar slíkt. Við hvetjum sem flesta félaga Fuglaverndar að taka þátt í starfi okkar. Viðhaldsvinna í Friðlandinu er ekki aðeins að tína rusl, munda pensil og skröpu heldur er er þetta líka vettvangur til að hitta fólk sem hefur áhuga á fuglum. Það er engu líkt að mála og hlusta á söng lóma allt í kring sem og söng annar fugla eins og lóuþræla, þúfutittlinga, tjalda, jaðrakana og þar fram eftir götunum, í Friðlandi í Flóa.

Í júní verður Fuglavernd með fuglaskoðunargöngur í Friðlandi. Fylgist með á viðburðardagatalinu.

 

 

 

 

Dagur farfuglanna

10 maí s.l. var tileinkaður farfuglum um heim allan því farflug fugla er stórmerkilegt fyrirbæri.

Í fyrsta lagi, af hverju leggja fuglar í farflug, sumir 45.000 km aðra leið til þess eins að makast, verpa, unga út, ala upp unga og svo fljúga sömu leið tilbaka á vetrarstöðvar?

Þeir kjósa að gera þetta af því að þeir geta flogið og þannig valið um að dvelja vetrarlangt  þegar þeir eru ekki í varpi, á stöðum þar sem er milt veður og næg fæða og síðan verið í sumardvöl  þar sem gott er að ala upp unga með tilliti til fæðu og öryggis.  Það kostar fugla mikla orku að leggja í langt farflug. Fæðuframboð, veðurfar og öryggi skipta því miklu máli svo og átthagatyryggð.

Það er urmull farfugla sem að leggja af stað í flug á vorin og haustin. Þeir fylgja nær allir ákveðnum leiðum þar sem veður og  vindar eru hagstæðir sem og sjávarstraumar og uppstreymi sem að geta létt þeim för. Ein af farleiðunum kallast Afríku- Evrasíu farleiðin. Ísland er hluti hennar.  Á þessari leið fara fuglarnir um Evrópu, Asíu og Afríku þar sem býr alls konar fólk og landslag er breytilegt. Þar leynast líka mestu hætturnar t.d. veiðiþjófar, mannvirki sem að valda hættu á áflugi og búsvæðamissir.  Fuglavernd og öll fuglaverndarfélögin í BirdLife International, berjast fyrir verndun  búsvæða til að tryggja afkomu fugla á hnettinum.

Sá fugl sem að ferðast lengstu leið milli varp- og vetrarstöðva er krían. Fræðiheiti kríu er Sterna paradisaea, sem gæti útlagst paradísarþerna á íslensku og er lýsandi, krían býr við endlaust sumar á ferðum sínum.

Á Vísindavefnum má finna fínar greinar um farflug kríu

Áhugavert kort þar sem sést hvar kríur verpa á jarðarkringlunni, það er víðar en á Íslandi

Einn ástsælasti fugl Íslendinga er heiðlóan.  Varpstöðvarnar ná frá austurstönd Grænlands í vestri til Íslands og  norður Skandínavíu og austur eftir Síberíu. Hún hefur vetursetur frá Bretlandseyjum að norður Afríku.  Heiðlóur eru  veiddar til matar í Suður-Evrópu.  Heiðlóan á undir högg að sækja m.a. vegna ágang mannsins á búsvæði hennar sem eru einkum móavistir. Frá því að hafa ekki verið í hættu á válista árið 2018 er Heiðlóa núna, árið 2025, í nokkurri hættu. Sjá nánar á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar

Spóar dvelja í vestur Afríku veturlangt og leggja í farflug seinni part apríl. Flestir spóar millilenda á Írlandi, Bretlandi eða meginlandi Evrópu á leið sinni til Íslands. En eftir sumarið  fljúga flestir í einum rykk suður tiol Afríku og tekur flugið fimm sólarhringa. Graham Appleton fuglafræðingur, hefur skrifað blogg um vaðfugla árum saman og í apríl 2022 fjallaði hann um farflug spóa til Íslands.

Árið 2018 voru spói og  jaðrakan ekki í hættu en árið 2025 er jaðrakan í yfirvofandi hættu og spóinn í nokkurri hættu og  er þetta áhyggjuefni. Hvað verður um alla fallegu farfuglana okkar ef búsvæðin eru engin?

 

 

 

Kynningarfulltrúi óskast til starfa

Kynningarfulltrúi vegna endurheimtar votlendis

Viltu taka þátt í mikilvægu og spennandi verkefni sem tengir vísindi og náttúruvernd?

Fuglavernd leitar að metnaðarfullum aðila til að sinna krefjandi starfi sem felur í sér markvissa miðlun þekkingar um náttúru og líffræðilega fjölbreytni til hagsmunaaðila, samstarfsaðila og almennings.

Starfið felur í sér að sinna samfélagsmiðlum og vefsíðu LIFE verkefnis um endurheimt votlendis í þágu fugla, gróðurs og loftslags, skrifa fréttatilkynningar og eiga í samskiptum við fjölmiðla og fjölmiðlafulltrúa, ásamt því að skipuleggja atburði og uppákomur í samstarfi við önnur félög og stofnanir og  sjá til þess að heildarásýnd verkefnisins veki traust og áhuga.

 

Gerð er krafa um:

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi
  • Afburðagott vísindalæsi ásamt áhuga á náttúru Íslands, náttúruvernd og umhverfismálum
  • Afburðahæfni í mannlegum samskiptum og teymisvinnu
  • Framúrskarandi vald á íslensku og ensku bæði í ræðu og riti
  • Skipulagshæfni, nákvæmni, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð

Æskileg hæfni:

  • Reynsla af verkefnastjórnun tengt miðlun og kynningarmálum
  • Reynsla af notkun samfélagsmiðla á markvissan hátt
  • Hæfni til að miðla flóknum upplýsingum á einfaldan og markvissan hátt til ólíkra markhópa
  • Reynsla af viðburðastjórnun
  • Þekking og reynsla af uppsetningu efnis á myndrænan hátt
  • Þekking og reynsla af gerð myndbanda
  • Reynsla af notkun vefumsjónarkerfa

Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra við viðkomandi stéttarfélag.

Starfshlutfall er 100%. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. september 2025.

Umsókn skal vera skrifleg og samanstanda af ferilskrá og kynningarbréfi sem lýsir umsækjanda og af hverju viðkomandi telur sig hæfan í starfið og vill sinna því.

Umsóknarfrestur er til og með 27. maí 2025. Öllum umsóknum verður svarað.
Umsóknir skal senda á fuglavernd@fuglavernd.is.

Áskorun til kattaeigenda á varptíma

Áskorun til kattaeigenda á varptíma

Ábyrgt kattahald – hvatning til kattaeigenda

Nú er vorið komið með tilheyrandi fuglasöng en varptími fugla er hafinn og stendur yfir frá maí fram í ágúst. Þetta er viðkvæmur tími hjá fuglunum en fjöldi fugla kemur hingað til lands í þeim tilgangi að fjölga sér. Fuglarnir gera sér hreiður og liggja á eggjum í 2-3 vikur áður en eggin klekjast og ungarnir skríða út og gaman að fylgjast með öllu ferlinu.

Kettir eru rándýr og mikilvægt að kattaeigendur hugi að því að kettir þeirra valdi ekki fugladauða.

Til eru nokkur ráð fyrir ábyrga kattaeigendur til að reyna að minnka þann skaða sem þeirra kettir mögulega valda.


Góð ráð fyrir ábyrga kattaeigendur

Með því að halda köttunum inni yfir kvöld og nótt, u.þ.b. frá kl. 17:00 til kl. 09:00 að morgni má að miklu leyti koma í veg fyrir veiðar katta, en kettir sjá betur þegar það fer að rökkva og eiga þá betur með að veiða fugla. Til að venja ketti á að koma inn seinnipartinn er hægt að gefa þeim eitthvað sem eigandinn veit að kisu finnst gott. Hafa þarf í huga að kettir þurfa meiri leik og athygli heima við á þessum tíma. Þeim köttum sem eru miklar veiðiklær væri best að halda inni á varptíma fugla þar sem þeir fara jafnvel upp í hreiður til að drepa unga og geta veitt tugi fugla yfir sumartímann.


Kattakragar gefa bestu raun

Rannsóknir hafa sýnt að kettir með litríka kraga drepa mun færri fugla en kettir án kraga. Fuglar koma fyrr auga á ketti með litríka kraga og eiga þá betur með að forða sér. Bjöllur gera eitthvað gagn við að minnka veiðar katta, en lítið á við kragana. Kragana er hægt að fá á allnokkrum stöðum svo sem hjá Fuglavernd, í Kattholti, Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, gæludýraverslunum og hjá dýralæknum.

Fuglavernd, Kattavinafélag Íslands, Dýraverndarsamband Íslands, Dýraþjónusta Reykjavíkur  og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hvetja kattaeigendur að sýna ábyrgð og taka tillit til fuglalífs með því að reyna að lágmarka fugladráp katta sinna á varptíma fugla.

Hér má finna ítarefni – Heimiliskötturinn, besti vinur mannsins en ógn við fuglalíf?

 

 

Frétt um sama efni vorið 2022

 

Heiðlóa með unga. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.

Mikilvægu búsvæði mófugla spillt

Í ljósi þess að Yggdrasill Carbon ehf lét rista upp 160 ha land á jörðinni Saltvík við Húsavík á varptíma fugla sumarið 2024 sendi Fuglavernd kæru til Lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra þann 25.mars 2025.

Fuglavernd telur þetta vera refsivert brot. Í samþykktum Fuglaverndar er kveðið á um tilgang félagsins, sem er verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir.

Um er að ræða vel gróið og mikilvægt búsvæði mófugla s.s. rjúpu, heiðlóu og spóa. Bæði heiðlóa og spói teljast til ábyrgðategunda Íslands, heiðlóa er auk þess skráð í 1. viðauka Bernarsamningsins sem listar þær tegundir sem aðildarþjóðir skuldbinda sig til að vernda með sértækri búsvæðavernd.

 

Hér er hægt að lesa afrit kærunnar sem var send.

 

Um menn, stara og flær

Með vorinu tínast farfuglarnir okkar heim. Þeir fuglar sem virðast mest vera á vörum félagsmanna okkar eru þó ekki heiðlóur, gæsir eða stelkar, sem allt eru tegundir sem eru byrjaðar að koma, heldur starar.

Starar eru með algengari fuglum í þéttbýli og því hluti af daglegu lífi margra. Á þessum árstíma eru þeir farnir að undirbúa varp, meðal annars með því að skoða gömul hreiðurstæði eða jafnvel finna ný. Það er því á þessum tíma sem margir taka eftir þeim í þakskeggjum, fá áhyggjur af flóabiti og vilja mögulega gera eitthvað í málunum.

Því miður er hreinlega of seint í rassinn gripið að gera það núna, þar sem stararnir eru byrjaðir að undirbúa varp og það er hreinlega ólöglegt að trufla það atferli þeirra (og það hefur verið raunin síðan hann var friðaður árið 1882). Auk þess vakna flærnar líka til lífsins eftir vetrardvala um þessar mundir og að hrófla við hreiðrinu núna mun að öllum líkindum valda því að þær fara á enn meira flakk, með tilheyrandi fjölgun flóabita.

Almennt séð fara flærnar lítið úr hreiðrum stara sem eru í notkun og láta sér duga blóðið úr þeim. Ef aftur á móti enginn stari kemur aftur í hreiðrið að loknum vetri geta nývöknuðu flærnar farið á flakk og rata þá mögulega inn í híbýli manna. Það eru því hreiðrin sem við sjáum ekki og vitum ekki af sem eru líklegust til að gefa frá sér flærnar, ekki þær sem við sjáum starana nú heimsækja og laga til. Þar fyrir utan eru eigendur hunda og (sérstaklega) katta líklegri til að vera bitnir, því dýrin ná sér í flærnar úti og bera þær inn til eiganda síns.

Fuglavernd bendir á að lögum samkvæmt skal láta starana og hreiður þeirra í friði næstu mánuði. Ef staraflær valda miklum ama má þó fjarlæga hreiður en það skal gert næsta haust eða vetur. Þá er ný kynslóð flóa komin í púpur sínar og bíða þær rólegar eftir næsta vori og nýjum fórnarlömbum.

 

Allir fuglar hafa flær. Vegna nábýlis mannsins og starans eru þó meiri líkur á að við verðum bitin af starafló en öðrum flóm.

Frekari upplýsingar um starafló má finna á vef Náttúrufræðistofnunar.

 

Skógræktarframkvæmdir við Húsavík kærðar

Fuglavernd sendi eftirfarandi fréttatilkynningu til fjölmiðla fyrir helgi vegna kærunnar

Fuglavernd leggur fram kæru vegna skógræktarframkvæmda við Húsavík

Fuglavernd, einnig þekkt sem Fuglaverndarfélag Íslands, hefur kært til Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra framkvæmdir sem fólu í sér umtalsvert rask á náttúrulegu mólendi og varplendum fugla við Húsavík sumarið 2024, þar sem jarðvegur var unninn og trjáplöntur gróðursettar í tengslum við skógrækt til kolefnisbindingar. Framkvæmdin fór fram á varptíma fugla. Kæran beinist að meintu broti á náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og villidýralögum nr. 64/1994 en mögulega hafa lög nr. 55/2013 um velferð dýra einnig verið brotin.

Í kærunni kemur fram að framkvæmdin hafi raskað mikilvægum varpsvæðum fuglategunda, svo sem heiðlóu og spóa, sem njóta verndar samkvæmt lögum og eru auk þess ábyrgðartegundir Íslands. Framkvæmdir fóru mögulega fram án nauðsynlegs mats eða leyfis samkvæmt lögum, en mál Yggdrasils og fleiri aðila vegna framkvæmda á þremur svæðum á tveimur jörðum í Norðurþingi er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, sem og aðkoma sveitarfélagsins í því sambandi.

Málið vakti talverða athygli í fjölmiðlum síðasta sumar og vakti umræðu um álitamál í tengslum við skógrækt, kolefnisbindingu, náttúruvernd og stjórnsýslu sveitarfélaga. Fuglavernd leggur áherslu á að tryggt sé að framkvæmdaraðilar og leyfisveitendur fari að lögum og virði verndarsjónarmið þegar ráðist er í aðgerðir sem hafa neikvæð áhrif á náttúruleg vistkerfi.

HAXI – Hagsmunafélag líffræðinema

HAXI – Hagsmunafélag líffræðinema kom í sína árlegu vísindaferð til Fuglaverndar.

20. febrúar kom HAXI – Hagsmunafélag líffræðinema í sína árlegu vísindaferð til Fuglaverndar. Það er alltaf ánægjulegt að taka á móti þessum verðandi líffræðingum og að sjálfsögðu vonum við að margir þeirra munu leggja fyrir sig rannsóknir og störf innan líffræðinnar sem að verða fuglum til framdráttar.

Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar kynnti starfsemi félagsins fyrir Haxverja og hér má skoða kynninguna hennar.

Aron Alexander Þorvarðarson líffræðingur og starfsmaður Fuglaverndar var með erindi um ERF- endurheimt votlendis verkefnið sem hann vinnur að fyrir Fuglavernd.

Að lokinni fræðslu bauð Fuglavernd upp á sushi og drykki og spunnust líflegar umræður um félagið, starfið og margt annað skemmtilegt.

Gott og skemmtilegt boð og Fuglavernd hlakkar til að taka á móti næsta hópi að ári liðnu.

valkvæmt

Hvernig færum við landið í fyrra horf?

Samstarfsverkefni náttúruverndarfélaga á Íslandi og í Póllandi.

Fuglavernd hefur um skeið unnið að endurheimt votlendis í nafni votlendisfugla og sumarið 2022 fékkst styrkur frá nokkrum erlendum aðilum til samstarfs á milli Póllands og Íslands um málefni votlendis og til miðlunar reynslu og þekkingar á málaflokknum. Héðan fóru nokkrir aðilar frá Landgræðslunni, Landbúnaðarháskólanum og Fuglavernd til Póllands til að skoða mismunandi endurheimtar verkefni, m.a. í Poleski þjóðgarðinum. Eitt verkefnanna í Póllandi beindist sérstaklega að því að endurheimta búsvæði fenjasöngvarans (aquatic warbler), einn sjaldgæfasti söngfugl Evrópu, sem greinilega hafði tekist vel þar sem gestirnir frá Íslandi fengu bæði að sjá og hlýða á fuglinn.

 

 

Seinna sama ár komu svo kollegar okkar frá Póllandi til að kynna sér aðstæður á Íslandi og ýmis áhugaverð svæði skoðuð, m.a. endurheimt votlendis í Friðlandinu í Flóa og að Sogni í Ölfusi. Af þessu samstarfi og samanburði á aðstæðum í Póllandi og Íslandi varð til skýrslan „ Hands-on manual on Re-Wetting“ sem þau Sunna Áskelsdóttir hjá Landi og skógi og Pawel Pawlaczyk frá pólsku samtökunum Klub Przyrodników skrifuðu. Skýrslan er nú komin út á netinu og má sjá hér en enn sem komið er bara á ensku: Hands-on Manual on Re-Wetting. Exchange of Icelandic and polish experience in peatland restoration for biodiversity and climate.

Við Sogn er að finna eldra grágrýti, þar sem basísk og ísúr gosberg auk setlaga eru ríkjandi. Jarðvegurinn, sem Sunna sýnir hópnum, er einkennandi fyrir svæðið, þar sem svartjörð og brúnjörð eru algengar. Svartjörð svipar mjög til mójarðar en inniheldur ekki jafn mikið af lífrænum efnum. Engu að síður er svæðið tilvalið fyrir votlendisendurheimtarverkefni, sem mun nýtast fuglum, auka líffræðilega fjölbreytni og draga úr losun frá landi.

 

Vetrarfuglatalning — hvað er nú það?

 

Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar stendur eftirfarandi um vetrarfuglatalningu:

„Vetrarfuglatalningar eru ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi og sú sem tekur til flestra fuglategunda. Frá upphafi hafa áhugamenn unnið þetta verk í sjálfboðavinnu og á annað hundrað manns taka þátt. Talningar fara fram á föstum dögum í kringum áramót. Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningar eru staðlaðar og nýtast til vöktunar einstakra stofna.”

Það er hægt að fræðast meira um vetrarfuglatalningar á heimasíðu NÍ.

Aron Þorvarðarson tímabundinn starfsmaður Fuglaverndar í ERF verkefnum  tók þátt í vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar (NÍ) 7.janúar 2025. Aron og starfsmenn Náttúrufræðistofnunar hittust og skiptu með sér verkum. Aroni var úthlutað  partur svæðis 038 Saltvík – Bakki (ós Blikadalsár)

Hluti strandlengju  Íslands hefur verið skipt upp í svæði eða búta og er talningarmönnum dreift á þau. Þátttakendur er fólk sem þekkir fugla vel og getur greint milli tegunda og talið fjölda hverrar tegundar.

Hér má sjá kort af svæðum vetrarfuglatalningar

Alls taldi Aron 19 tegundir. Þar voru flestir æðarfuglar 884 og þær tegundir sem aðeins einn einstaklingur sást voru: Sendlingur, álka, hettumáfur og smyrill.

Allar tegundirnar, raðað eftir fjölda einstaklinga má sjá í töflu hér fyrir neðan.