NACES - verndarsvæði í hafi - á stærð við Frakkland
Í viðamiklu samstarfsverkefni, undir forystu BirdLife, var sjónum beint að mikilvægu fuglasvæði sem er í miðju Norður-Atlantshafi. Hafsvæðið hlaut stöðu verndarsvæðis í október 2021.
Svæðið kallast NACES MPA - the North Atlantic Current and Evlanov Seamount og er eitt mikilvægasta fæðusvæði fyrir sjófugla í Atlantshafinu og fyrsta sjófuglaþyrping af þessari stærðargráðu sem skráð hefur verið í úthöfunum. Staðsetningarsendar sem festir voru á 2,188 fugla af 21 tegund frá 105 mismunandi sjófuglabyggðum í 16 löndum við Norður- og Suður Atlandshaf sýna fram á að yfir 5 milljón sjófuglar halda til á þessu svæði samtímis og nýta það helst á veturna og á farleiðum sínum frá sumar og vetrarstöðvum, en sumir árið um kring.
Svæðið, sem er í NA-Atlandshafi og nær yfir tæplega 600,000 km2 í úthafi (utan lögsögu nokkurrar þjóðar), fékk stöðu verndarsvæðis í hafi samkvæmt OSPAR-samstarfinu í október 2021, en Ospar samningurinn er alþjóðlegur samningur um verndun Norð-Austur Atlandshafsins er er aðkoma íslands að samstarfinu á ábyrgð umhverfisráðuneytisins. Þetta voru frábærar fréttir þó að á þeim tíma hafi sjávarbotninn verið undanskilinn vernduninni. Við hjá Fuglavernd ásamt fleiri fuglaverndarfélögum og BirdLife Europe stóðum fyrir áróðri fyrir því að aðildarlönd Ospar samningsins myndu greiða atkvæði með því að taka sjávarbotninn inn í verndarsvæðið og í júní 2023 gekk það eftir.
Hvers vegna er mikilvægt að vernda sjávarbotninn?
Heilbrigð vistkerfi sjávarbotns eru lykillinn að því að viðhalda fæðukeðjunni sem tegundir á svæðinu reiða sig á. Flæði vatns þýðir að vistkerfi sjávar - frá vatnssúlu til sjávarbotns - eru í eðli sínu tengd. Hverskyns breytingar á öðrum þessara tveggja þátta (t.d. af völdum mannlegra athafna) hljóta að hafa áhrif á og trufla hinn. Meðal íbúa NACES svæðisins eru þekktar fuglategundir eins og lundinn, ritan, krían og haftyrðilinn.
En svæðið er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjófugla. Undir yfirborðinu eru heimkynni mikils líffræðilegs fjölbreytileika sjávarlífvera. Svæðið er mikilvægt fyrir nokkrar tegundir í hættu eins og steypireyð, leðurskjaldbökur, „loggerhead“ skjaldbökur, túnfiska, beinhákarla, kóralla og djúpsjávarsvampa. Án verndaðs sjávarbotns er þetta einstaka athvarf náttúrunnar berskjaldað fyrir hættu af mannavöldum.
NACES hefur mikla möguleika á kolefnisbindingu.
Setlög í hyldýpum og lægðarsvæðum úthafanna innihalda 79% af kolefnisbirgðum sjávarsets í heiminum. Miðað við stærð NACES er líklegt að setið innan verndarsvæðisins sé umtalsverð kolefnisgeymsla. Verndun sjávarbotnsins mun stuðla að markmiði OSPAR um að draga úr loftslagsbreytingum og súrnun sjávar, m.a. með því að standa vörð um hlutverk sjávarvistkerfisins sem náttúrulegrar kolefnisgeymslu.
Í heimi þar sem náttúrunni á hafi úti er stöðugt ógnað af athöfnum manna, ofnýtingu náttúruauðlinda og loftslagsbreytingum er heildræn nálgun, sem tekur til heilla vistkerfa og tenginga þeirra, nauðsynleg.
NACES MPA OSPAR Commision - hér má finna frekari upplýsingar
Brynja Davíðsdóttir sinnir þessu verkefni fyrir hönd Fuglaverndar en næsta skrefið er að gerð verði verndar- og stjórnunaráætlun fyrir þetta stóra svæði sem aðildarríki Ospar samningsins gangi að.
©Fuglavernd 2021 | Hverfisgötu 105 | 101 Reykjavík |Opið mán-fim kl. 9-13 | +354 562 0477| fuglavernd@fuglavernd.is