IBA er stytting á Important Bird Areas sem á íslensku útleggst sem alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði en alþjóðlegu fuglaverndarsamtökin BirdLife halda skrá yfir svæðin allstaðar í heiminum.
Eitt af verkefnum Fuglaverndar er að endurskoða skránna og bæta við nýjum svæðum sem standast kröfur BirdLife International.
IBA svæði á Íslandi – staðan 2025
Á skrá Birdlife International eru nú 111 svæði á Íslandi. Sjá: IBA svæði á Íslandi
Meðal IBA svæða á Íslandi má nefna:
– Eldey, þar sem er talin er vera stærsta súlubyggð í Evrópu (og þar sem síðasti geirfuglinn var veginn). Sjá: vefmyndavél í Eldey.
– Vestmannaeyjar, vegna varps sjósvölu, stormsvölu og lunda. Sjá: IBA Vestmannaeyjar á vef Birdlife.
– Þjórsárver, eitt helsta varpland heiðargæsa og skiptir sköpum fyrir stofninn á Íslandi og Grænlandi. Sjá: Þjórsárver á vef UST
Lykilstaðreyndir um IBA svæði
- Til þessa hafa yfir 13.600 svæði verið skilgreind sem alþjóðlega mikilvæg. Þetta á bæði við um mikilvæg fuglasvæði og mikilvæg svæði líffræðilegrar fjölbreytni (bio diverse sites).
- Til að greina alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði og svæði líffræðilegrar fjölbreytni (Bird and Biodiversity Areas or IBA’s) er alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum beitt staðbundið af sérfræðingum og þátttakendum BirdLife, Fuglavernd í tilviki Íslands.
- 33% IBA svæðanna njóta engrar formlegrar náttúruverndar og önnur 45% svæðanna njóta aðeins náttúruverndar að hluta. Þessi svæði eru meðal verkefna sem eru hvað mest aðkallandi þegar kemur að forgangsröðun náttúruverndar á heimsvísu.
- BirdLife viðurkennir að formleg náttúruvernd er ekki eina lausnin og vinnur því ásamt samstarfsaðilum að samþætta náttúruvernd með sjálfbærri þróun.
- Nánari upplýsingar á DataZoneBirdlife
Sjófuglabyggðir á Íslandi
Fuglavernd hefur lagt sérstaka áherslu á búsvæðavernd í starfi sínu. Með því að beina kastljósi að sjófuglabyggðum á Íslandi viljum við efla fræðslu um tegundir sem eru í útrýmingarhættu og lykillinn að því að sporna gegn þeirri þróun er að standa vörð um búsvæði tegundanna.
Mikilvæg fuglasvæði Náttúrufræðistofnunar Íslands
Náttúrufræðistofnun hefur skilgreint 121 svæði á Íslandi sem alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Flest svæðin eru þau sömu og eru skilgreind af fuglavernd og BirdLife International. Það stendur til að sameina þessa lista framvegis. Hér er hægt að skoða nánar um svæðin í skilgreiningu Náttúrfræðistofnunar enn fremur hefur stofnunin látið gera kort þar sem eru saman vistgerðir og alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði á Íslandi.