Dagur farfuglanna

10 maí s.l. var tileinkaður farfuglum um heim allan því farflug fugla er stórmerkilegt fyrirbæri.

Í fyrsta lagi, af hverju leggja fuglar í farflug, sumir 45.000 km aðra leið til þess eins að makast, verpa, unga út, ala upp unga og svo fljúga sömu leið tilbaka á vetrarstöðvar?

Þeir kjósa að gera þetta af því að þeir geta flogið og þannig valið um að dvelja vetrarlangt  þegar þeir eru ekki í varpi, á stöðum þar sem er milt veður og næg fæða og síðan verið í sumardvöl  þar sem gott er að ala upp unga með tilliti til fæðu og öryggis.  Það kostar fugla mikla orku að leggja í langt farflug. Fæðuframboð, veðurfar og öryggi skipta því miklu máli svo og átthagatyryggð.

Það er urmull farfugla sem að leggja af stað í flug á vorin og haustin. Þeir fylgja nær allir ákveðnum leiðum þar sem veður og  vindar eru hagstæðir sem og sjávarstraumar og uppstreymi sem að geta létt þeim för. Ein af farleiðunum kallast Afríku- Evrasíu farleiðin. Ísland er hluti hennar.  Á þessari leið fara fuglarnir um Evrópu, Asíu og Afríku þar sem býr alls konar fólk og landslag er breytilegt. Þar leynast líka mestu hætturnar t.d. veiðiþjófar, mannvirki sem að valda hættu á áflugi og búsvæðamissir.  Fuglavernd og öll fuglaverndarfélögin í BirdLife International, berjast fyrir verndun  búsvæða til að tryggja afkomu fugla á hnettinum.

Sá fugl sem að ferðast lengstu leið milli varp- og vetrarstöðva er krían. Fræðiheiti kríu er Sterna paradisaea, sem gæti útlagst paradísarþerna á íslensku og er lýsandi, krían býr við endlaust sumar á ferðum sínum.

Á Vísindavefnum má finna fínar greinar um farflug kríu

Áhugavert kort þar sem sést hvar kríur verpa á jarðarkringlunni, það er víðar en á Íslandi

Einn ástsælasti fugl Íslendinga er heiðlóan.  Varpstöðvarnar ná frá austurstönd Grænlands í vestri til Íslands og  norður Skandínavíu og austur eftir Síberíu. Hún hefur vetursetur frá Bretlandseyjum að norður Afríku.  Heiðlóur eru  veiddar til matar í Suður-Evrópu.  Heiðlóan á undir högg að sækja m.a. vegna ágang mannsins á búsvæði hennar sem eru einkum móavistir. Frá því að hafa ekki verið í hættu á válista árið 2018 er Heiðlóa núna, árið 2025, í nokkurri hættu. Sjá nánar á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar

Spóar dvelja í vestur Afríku veturlangt og leggja í farflug seinni part apríl. Flestir spóar millilenda á Írlandi, Bretlandi eða meginlandi Evrópu á leið sinni til Íslands. En eftir sumarið  fljúga flestir í einum rykk suður tiol Afríku og tekur flugið fimm sólarhringa. Graham Appleton fuglafræðingur, hefur skrifað blogg um vaðfugla árum saman og í apríl 2022 fjallaði hann um farflug spóa til Íslands.

Árið 2018 voru spói og  jaðrakan ekki í hættu en árið 2025 er jaðrakan í yfirvofandi hættu og spóinn í nokkurri hættu og  er þetta áhyggjuefni. Hvað verður um alla fallegu farfuglana okkar ef búsvæðin eru engin?