Með vorinu tínast farfuglarnir okkar heim. Þeir fuglar sem virðast mest vera á vörum félagsmanna okkar eru þó ekki heiðlóur, gæsir eða stelkar, sem allt eru tegundir sem eru byrjaðar að koma, heldur starar.
Starar eru jú með algengari fuglum í þéttbýli og því hluti af daglegu lífi margra. Á þessum árstíma eru þeir farnir að undirbúa varp, meðal annars með því að skoða gömul hreiðurstæði eða jafnvel finna ný. Það er því á þessum tíma sem margir taka eftir þeim í þakskeggjum, fá áhyggjur af flóabiti og vilja mögulega gera eitthvað í málunum.
Því miður er hreinlega of seint í rassinn gripið að gera það núna, þar sem stararnir eru byrjaðir að undirbúa varp og það er hreinlega ólöglegt að trufla það atferli þeirra (og það hefur verið raunin síðan hann var friðaður árið 1882). Auk þess vakna flærnar líka til lífsins eftir vetrardvala um þessar mundir og að hrófla við hreiðrinu núna mun að öllum líkindum valda því að þær fara á enn meira flakk, með tilheyrandi fjölgun flóabita.
Almennt séð fara flærnar lítið úr hreiðrum stara sem eru í notkun og láta sér duga blóðið úr þeim. Ef aftur á móti enginn stari kemur aftur í hreiðrið að loknum vetri geta nývöknuðu flærnar farið á flakk og rata þá mögulega inn í híbýli manna. Það eru því hreiðrin sem við sjáum ekki og vitum ekki af sem eru líklegust til að gefa frá sér flærnar, ekki þær sem við sjáum starana nú heimsækja og laga til. Þar fyrir utan eru eigendur hunda og (sérstaklega) katta líklegri til að vera bitnir, því dýrin ná sér í flærnar úti og bera þær inn til eiganda síns.
Fuglavernd bendir á að lögum samkvæmt skal láta starana og hreiður þeirra í friði næstu mánuði. Ef staraflær valda miklum ama má þó fjarlæga hreiður en það skal gert næsta haust eða vetur. Þá er ný kynslóð flóa komin í púpur sínar og bíða þær rólegar eftir næsta vori og nýjum fórnarlömbum.
Allir fuglar hafa flær. Vegna nábýlis mannsins og starans eru þó meiri líkur á að við verðum bitin af starafló en öðrum flóm.
Frekari upplýsingar um starafló má finna á vef Náttúrufræðistofnunar.