Ljsm. Róbert A. Stefánsson. Kristinn Haukur og arnarungar. 2019.

Í minningu Kristins Hauks Skarphéðinssonar

Kristinn Haukur, dýravistfræðingur, er fallinn frá eftir skammvinn en snörp veikindi. Fuglavernd hefur um áratugaskeið notið krafta Kristins Hauks í baráttunni fyrir vernd fugla og búsvæða þeirra. Hann varð félagi í Fuglavernd strax á unglingsárum og alla tíð síðan öflugur liðsmaður og tilbúinn að leggja hönd á plóg ef eftir var leitað. Það munar um slíkan liðsauka! Af mörgu er að taka en ég vil nefna að Kristinn Haukur sat í stjórn félagsins um árabil, hann tók þátt í að skipuleggja 50 ára afmæli Fuglaverndar, hann var formaður undirbúningsnefndar ráðstefnu um vindorkuver og fugla 2023, hann ritaði margar greinar í tímarit félagsins, var um árabil fundarstjóri á aðalfundum félagsins og aðstoðaði við gagnasöfnun vegna skráningar á mikilvægum fuglasvæðum og gerð evrópska válistans fyrir fugla.
Verndun hafarnarins var Kristni Hauki hjartans mál og þar átti hann sterka samleið með Fuglavernd. Fuglavernd var stofnuð árið 1963 af Birni Guðbrandssyni og félögum hans. Meginmarkmið félagsins í upphafi var að tryggja framtíð hafarnastofnsins sem þá taldi aðeins um 20 varppör og því í útrýmingarhættu. Verndaraðgerðirnar sem félagið beitti voru einkum að fá landeigendur, þar sem ernir áttu sér óðul, til liðs við málstaðinn en einnig hvatti félagið stjórnvöld til að banna eiturútburð. Á þessum árum leyfðist að nota eitrað agn til að bana tófum og öðrum „meindýrum“. Þessar eitruðu beitur urðu örnum títt að grandi. Hvort tveggja gekk eftir, bæði jókst velvild í garð arnarins og eins var eiturútburður bannaður. Arnarstofninn svaraði og hefur vaxið hægt en þó jafnt og þétt frá um 1970 og telur nú meira en 90 óðalspör. Allt frá stofnun sinnti Fuglavernd líka vöktun arnarstofnsins. Kristinn Haukur tók þátt í því starfi og þegar frumherjarnir stigu til hliðar axlaði hann alfarið ábyrgðina og frá 1993 var vöktunin hluti af hans vinnu við Náttúrufræðistofnun. Félagar í Fuglavernd hafa allar götur síðan unnið með Kristni Hauki við vöktun arnastofnsins og þar hafa verið fremstir meðal jafningja Finnur L. Jóhannsson og Hallgrímur heitinn Gunnarsson. Í tilefni af 50 ára afmæli Fuglaverndar kom út ritið Haförninn. Kristinn Haukur ritaði textann og fjallar þar um sögu hafarnarins á Íslandi, vistfræði tegundarinnar og tengsl manna og arna. Utan vöktunar stofnsins voru arnarannsóknir Kristins og samstarfsaðila síðustu 6 árin einkum fólgnar í því að skrá með senditækjamerktum örnum ferðalög þeirra á milli sveita og landshluta.
Ný ógn, vindorkuver, steðjar að haferninum. Ætlunin er að reisa slík orkuver þvert í þjóðbraut arna. Reynsla erlendis frá sýnir að slíkt getur verið meiri háttar ógn við erni og nægir þar að nefna að á eyjunni Smöla fyrir ströndum Noregs hafa 150 ernir drepist eftir að hafa lent í spöðum vindmylla frá árinu 2002. Kortlagning Kristins og félaga á loftvegum arna eru grundvallarupplýsingar í umræðuna um staðsetningu vindorkuvera!
Með þakklæti og virðingu kveðjum við traustan félaga og vottum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Fuglaverndar,
Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri