Nýtkomin skýrsla samtakanna BirdLife International lýsir ástandi fugla um heim allan. Fuglavernd hefur verið aðili að samtökunum frá byrjun þessarar aldar og fullgildur aðili frá 2016.
Þeir sem hafa áhuga á að lesa skýrsluna geta lesið úrdrátt á heimasíðu Birdlife International eða hlaðið niður allri skýrslunni þar.
Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar má lesa válistaskrá fugla á Íslandi.
Samtökin BirdLife International eru 100 ára gömul á þessu ári. Um hádegisbil árið 1922 kom hópur fólks saman í Glasgow, Skotlandi. Það sem sameinaði þau var ástríða þeirra fyrir fuglum. Þau hittust heima hjá sir Robert Horne sem var þingmaður fyrir Glasgow á þeim tíma. Hópurinn ákvað að sameinaðra alþjóðlegra aðgerða væri þörf til að vernda fugla gegn ógnum sem að þeim stæðu og þar með var Alþjóðlegt ráð fyrir verndun Fugla, The International Council for Bird Preservation (ICBP)) stofnað. Það heitir nú Birdlife International.