Ljósm. ofan Hjalti Lúðvíksson
Níu manns á vegum Fuglaverndar hittust við Garðskagavita og skoðuðu og hentu tölu á fuglaflóruna þar á farfugladegi að hausti. Enn fremur voru skoðaðir fuglar í Sandgerði og á Fitjum í Njarðvíkum.
Heilmikið sást af gylltum heiðlóum, hettulausum hettumáfum og svo ekki sé minnst á vaðfugla eins og tildrur, sandlóur og sendlinga í haust eða vetrarbúning. Það gekk á með skúrum en allir voru vel klæddir og vopnaðir sjónaukum. Eftir tveggja tíma úthald fór að hellirigna og þá var gert súpuhlé á veitingastaðnum Röstinni og þar var skipst á fuglasögum af krafti. Síðan var ekið til Sandgerðis og veðurguðirnir voru hópnum hliðhollir því það stytti upp skamma stund þegar staldrað var við þar og tjaldar, topendur og fleiri fuglar skoðaðir. Síðasti áfangastaður var Fitjar í Njarðvíkum en þar hellirigndi en hópurinn setti upp hetturnar og fór út að skoða rauðhöfðaendur og álftir og sáu þá eina flæking dagsins; ljóshöfðastegg. 24 tegundir sáust samanlagt,
Fyrir utan hvað það er gaman að skoða fugla og reyna að greina nýjar tegundir er mikil skemmtun af því að hitta aðra félaga Fuglaverndar. Margir sem hafa áhuga á fuglaskoðun eru einir á báti í áhugamálinu og hafa ekki alltaf skilning vina og kunningja á þessu. Sumir eiga auðvitað fullt af fuglaskoðunarvinum en fyrir þá sem eru einir á báti í áhugamálinu sínu þá mælum við í Fuglavernd með að koma á viðburðina okkar, hvort sem er í Friðlandinu, Garðskaga, í skógarferðir, langferðir um landið eða í fuglaskoðanir erlendis. Maður þarf ekki að vera fulllærður í faginu til að njóta þess. Alltaf er gott að læra eitthvað nýtt. Þrátt fyrir að fuglar séu skemmtilegt viðfangsefni þá er maður manns gaman líka. Í þessum túr var Anna-María Lind starfsmaður skrifstofu Fuglaverndar fararstjóri, áhugakona um fugla en ekki enn sérfræðingur. Innan vébanda Fuglaverndar er urmull færra fuglaskoðara sem við fáum með til leiks þegar þannig ber undir.
ljósmyndir Katrín Guðjónsdóttir