Reykjavíkurborg og Umhverfisstofnun hafa formlega kynnt áform um friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði sem friðland, í samræmi við 49. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda alþjóðlega mikilvæga sjófuglabyggð, þá sérstaklega lundavarp en lundinn er tegund á válista.
Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega.
Akurey á Kollafirði
Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes. Í Akurey verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi, sílamáfur, æðarfugl og teista, og er lundi langalgengastur, 15.000 pör. Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð þar sem viðmiðið er ≥10.000 pör. Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að vernda þetta alþjóðlega mikilvæga fuglasvæði í Reykjavík og sér í lagi varpstöð lunda sem er á válista um fugla skilgreindur sem tegund í bráðri hættu. Einnig er markmiðið að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi.
Aðkoma Fuglaverndar
Fuglavernd fagnar því að nú sé í augsýn friðlýsing Akureyjar á Kollafirði. Árið 2014 fór málið af stað, með því að bréf til Reykjavíkurborgar um Akurey og Lundey.pdf Í kjölfarið kom í ljós að Lundey er í eigu ríkisins og því var sent bréf til UAR um friðlýsingu Lundeyjar.pdf. Erindinu sem sent var um Lundey til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis hefur enn ekki verið svarað, en nú er Reykjavíkurborg að bregðast við.
Erpur Snær Hansen Ph.D og stjórnarmaður í Fuglavernd hefur einnig ritað Reykjavíkurborg um Akurey og Lundey:
Akurey er á meðal 19 stærstu lundavarpa landsins (þegar Vestmannaeyjar annarsvegar og Breiðafjörður hinsvegar eru talin sem eitt varp). Akurey er næststærsta lundavarp í Faxaflóa (á eftir Andríðsey við Kjalarnes).
Þessi vörp eru stór á almennan mælikvarða en hafa einnig þá óvenjulegu sérstöðu hvað þau eru nálægt Reykjavíkurhöfn. Á síðustu árum hefur byggst upp hvala- og lundaskoðunariðnaður í Reykjavíkurhöfn sem á hagsmuni sína fólgna í að sýna lunda við þessi vörp, sérstaklega Akurey. Persónulega tel ég rétt að vekja sérstaklega athygli borgaryfirvalda á þessum áhugaverðu náttúruperlum við hafnarmynnið. Komin er tími til að borgaryfirvöld íhugi hvort þeirra eigin skipulag samræmist verndun og varðveislu þessara náttúruperla s.s. með því að hafa olíuuppskipunarhöfn á sama svæði. Síðustu hugmyndir sem lagðar voru til fyrir efnahagshrun var að stækka land með landfyllingu upp að Akurey og eyðileggja varpið í leiðinni. Borgaryfirvöld fá hér tækifæri til að sýna tilhlýðilega virðingu sína fyrir náttúrunni í verki.
Skilafrestur athugasemda 2. janúar 2019
Frestur til að skila athugasemdum við áform Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar er til og með 2. janúar 2019. Athugasemdum má skila á vef Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.