Ljósmynd: Heiðagæsir á flugi. ©Jóhann Óli Hilmarsson
„Það er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi“
Þessi orð eru höfð eftir Stefáni Jónssyni, alþingismanni, rithöfundi, útvarpsmanni og veiðimanni (1923 – 1990) og eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru skrifuð.
Allir veiðimenn þurfa að hafa gild skotvopnaleyfi og veiðikort þegar gengið er til veiða. Leyfilegt er að skjóta grágæs og heiðargæs. Stofn heiðargæsa er í sögulegu hámarki, um fimmfalt stærri að talið er en grágæsastofninn. Út frá sjálfbærni auðlinda mega skotveiðimenn hafa það í huga ef valið stendur milli þess að skjóta heiðargæs eða grágæs.
Nánar um skynsamlega skotveiði á vef Skotvís.
Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað.
Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.
Nánar um veiðitímabil á vef Umhverfisstofnunar.
Blesgæs friðuð
Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.