Fuglavernd styður heilshugar og fagnar tillögu að stækkun friðlands í Þjórsárverum. Nú verður loks stigið skrefið til fulls, sem stóð til að stíga sumarið 2013, öll verin eru friðlýst og tenging verður við friðland í Guðlaugstungum norðvestan Hofsjökuls og fyrirhugað friðland í Kerlingarfjöllum suðvestan Hofsjökuls.
Nú verður Eyvafen friðlýst og þá er vonandi búið að slá endanlega út af borðinu allar hugmyndir um frekari lón í verunum (Norðlingaölduveitu), en Kvíslaveitur hafa nú þegar breytt vatnsbúskap veranna umtalsvert. Það hefði vissulega verið gaman, hefði friðlandið teygt sig niður með Þjórsá og Dynkur verið friðlýstur í leiðinni, en hann er einn stærsti, tignarlegasti og fallegasti foss landsins. En hans tími mun koma.
Sjá frétt á vef UAR: Tillaga að stækkun friðlands Þjórsárvera til kynningar
Frestur til að skila umsögnum og athugasemdum vegna tillögunnar er til 3. október næstkomandi og má senda þær á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.