Þann 8. mars 2017 kallaði Fuglavernd saman hagsmunaaðila í grásleppuveiðum til að ræða rannsóknir sem við höfum verið að sinna undanfarin tvö ár um fuglameðafla í grásleppunetum.
Hingað komu fulltrúi frá Landssambandi smábátaeiganda, fulltrúar frá samtökum um sjálfbærar fiskveiðar á Íslandi (ISF), Hafró, Fiskistofu og MSC (Marine Stewardship Council) og funduðu með fulltrúum Fuglaverndar, Hólmfríði Arnardóttir framkvæmdastjóra og Rory Crawford verkefnastjóra.
Forsaga málsins er sú að 2015 og 2016 fékkst styrkur í gegnum Breska fuglaverndarfélagið og BirdLife til að rannsaka hve mikill fuglameðafli raunverulega sé í grásleppunetum og réðum við bæði árin, sjávarlíftæknisetrið Biopol til athugunarinnar. Þriðja ár rannsóknanna er 2017.
Við áttum okkur á því að ekki verður staðar numið hér. Til þess að öðlast betri skilning á umfangi og draga úr meðafla á fuglum við grásleppuveiðar er eftirfarandi lagt til:
- Haldið verði áfram að afla gagna með sambærilegum hætti og gert var í verkefninu árin 2015 og sérstaklega árið 2016.
- Fundnar verði leiðir til að bæta áreiðanleika skráninga í afladagbækur.
- Framkvæmdar verði tilraunir til þess að reyna að minnka meðafla á fuglum við hrognkelsaveiðar og gerð verði yfirgripsmikil talning á sjófuglum við Ísland til þess að meta stofnstærð þeirra.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Meira um verkefnið: Fuglameðafli