Rauðbrystingar á flugi

AEWA – verndun votlendisfugla

Fuglavernd fagnar því að ríkisstjórn Íslands hefur undirritað alþjóðlegan samning um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (AEWA). Samningurinn kveðjur á um aðgerðir til verndunar votlendsifugla á viðkomustöðum þeirra og nær því til fjölda fuglategunda sem verpa eða hafa áningarstað á Íslandi. Náttúruverndarstofnun Íslands mun bera ábyrgð á framkvæmd samningsins og umhverfis- og auðlindaráðuneytið á að tryggja virka þátttöku okkar í AEWA samstarfi.

Áhrif á náttúruvernd á Íslandi
Erlendis hefur þessi samningur náð verulegum árangri í að vernda tegundir sem hafa verið í útrýmingarhættu eða bara niðursveiflu. Hættan sem steðjar að vatnafuglum er fyrst og fremst eyðilegging á búsvæðum eða áningastöðum tegundanna og varpstöðum en einnig geta veiðar komið við sögu. Í dag hafa 69 lönd og Evrópusambandið (EU)  undirritað samkomulagið um verndun votlendisfugla á farleiðum Evrasí og Afríku. Samkomulagið fjallar um votlendisfugla sem eru farfuglar.  Undir það falla alls um 255 fuglategundir og um 500 stofnar.  AEWA kveður á um starfsáætlanir til verndar tegundum og stofnum í hættu auk þess að stuðla að vernd allra þeirra fuglategunda sem hann nær til.  Samkomulagið felur ekki aðeins í sér vernd fyrir fuglana heima fyrir heldur einnig á vetrarstöðvum þeirra, hvort heldur sem þær eru löndum Vestur-Evrópu eða Afríku, þar sem að íslenskir farfuglar hafa vetrardvöl.

Blýhögl
Eitt af markmiðum samkomulagsins er, að bönnuð verði notkun á blýhöglum við fuglaveiðar.  Mikill fjöldi votlendisfugla ferst af völdum blýeitrunar þar sem þeir innbyrða höglin með sandi, sem er þeim nauðsynlegur til að melta fæðuna og því safnast höglin fyrir í maga þeirra (miðlungsstór önd getur drepist af því að innbirgða þrjú högl).  Nú þegar hafa aðildarlönd bannað notkun þessara skaðlegu hagla.  Þetta bann mundi verða íslenskum fuglum heilladrjúgt, því líklegt er að blýeitrun á vetrarstöðvum þeirra verður fjölda andfugla að aldurtila.  Árlega má sjá íslenskar álftir veslast upp vegna blýeitrunar hér á landi.
Slóð á vefsíðu AEWA
Rauðbrystingar á flugi, ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson