Hettumáfur. Ljósmynd: Elma Rún Benidiktsdóttir

Máfahátíð á Húsavík

Máfahátíð verður í fyrsta skipti haldin á Húsavík dagana 9. til 10. mars nk.  Það er Fuglastígur á Norðausturlandi sem stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við ýmsa aðila. Henni er ætlað að vekja athygli á ríku fuglalífi Norðurlands/Íslands að vetri til og hvernig það getur nýst samfélaginu. Þetta er gert með viðburðum af ýmsu tagi og er kastljósinu beint að öllum fuglum, stórum jafnt sem smáum, vinsælum jafnt sem óvinsælum. Þegar á botninn er hvolft, eru þeir allir jafn áhugaverðir – náttúran minnir á sig og þolmörk sín í gegnum þá.

Undanfarin ár hefur sambærileg hátíð notið mikillar velgengni í Varanger, nyrst í Noregi og mun forsprakki hennar, Tormod Amundsen frá arkitektastofunni Biotope, koma ásamt fleiri erlendum gestum. Hann mun greina frá tilurð hátíðarinnar,  undraverðum árangri í uppbyggingu fuglaskoðunar í Varanger og möguleikum okkar á því sviði. Þá mun hinn heimsþekkti fuglamyndlistamaður, Darren Woodhead, lyfta vetrarfuglunum á stall með pensli sínum. Hann mun kynna listsköpun sína í opinni dagskrá og vera með sérstakt námskeið fyrir nemendur Borgarhólsskóla.

Fuglaskoðun að vetri

Fuglaskoðun á Íslandi að vetri til á vafalaust eftir að aukast. Margar af þeim tegundum sem erlendum fuglaskoðurum þykir hvað eftirsóknarverðastar eru hér allt árið. Straumendur eru til dæmis auðfundnar víða við Norðurströndina að vetri til og geta þær sómt sér vel á stalli með Norðurljósunum, sökum góðs aðgengis, fegurðar og sérstöðu (finnast ekki utan Íslands í Evrópu). Sama má segja um fálkann, rjúpuna, húsöndina og fleiri vetrarfugla. Þá myndar æðarfuglinn gjarnan stóra fleka við strandlengjuna sem eru tilkomumikil sjón og í þeim leynast stundum ægifagrir æðarkóngar. Litskrúðugir hávellu- og toppandarsteggir gleðja líka augað. Þannig má lengi telja.

Eins og nafn hátíðarinnar gefur til kynna er máfunum, aldrei þessu vant, gert hátt undir höfði. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir eru algengustu fuglarnir í flestum sjávarplássum landsins og af mörgum gerðum. Sú hugsun að þeir geti nýst okkur á einhvern hátt er yfirleitt víðsfjarri. Tilhneigingin hefur frekar verið í hina áttina, þ.e. að líta á máfana sem eins konar meindýr eða eitthvað sem er fyrir okkur. Samfélagið lítur þá gjarnan hornauga. En hvað eru máfar eiginlega? Og hvernig geta þeir og aðrir fuglar nýst manninum?

Máfarnir afhjúpaðir

Leitast verður við að afhjúpa líf máfanna á hátíðinni og munu nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík ríða á vaðið með þátttöku í útinámsverkefni tengdu alþjóðlegri rannsókn á máfum í Norður-Atlantshafi. Teymi máfasérfræðinga mun veiða þá í þar til gerðar gildrur við höfnina og setja litmerki á fætur þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra og lífshlaupi. Þarna gefst nemendum og öðrum áhugasömum tækifæri á að skoða máfana í bak og fyrir. Yann Kolbeinsson, líffræðingur og fuglaskoðari, mun leggja til sína þekkingu.

Máfahátíðin er samstarfsverkefni Fuglastígs á Norðausturlandi, Náttúrustofu Norðausturlands, Norðurþings og fleiri aðila. Það er von okkar að hátíðin festi sig í sessi sem árlegur viðburður á Norðausturlandi, tileinkaður fuglaskoðun og samspili manns og náttúru við Norður-Atlantshaf. Hún höfðar ekki síst til þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref í fuglaskoðun eða jafnvel ekki komnir á stað. Fuglaskoðun er fyrir alla.
 

Viðburðurinn: Máfahátíð á Húsavík