Lýsing
Urtönd er minnsta öndin sem verpur hér og raunar minnsta önd Evrópu. Hún er afar snör í snúningum og stygg. Í fjarska virðist steggurinn vera dökkgrár með dökkt höfuð. Hann er dökkrauðbrúnn á höfði og hálsi, með græna, ljósbrydda geira frá augum og aftur á hnakka.
Þessi litli, kviki og hraðfleygi fugl er hálfgerður náttfugl og mest á ferli í ljósaskiptunum og á nóttunni. Oft sjást urtendur fljúga lágt í þéttum, litlum hópi og svipar þá til vaðfugla. Urtöndin hefur sig bratt til flugs, er lítil og þéttvaxin með hnöttótt höfuð, stuttan háls og mjóa vængi. Hún er félagslynd utan varptíma en afar stygg og felugjörn.