Rjúpa ©Jakob Sigurðsson

Ábyrgð veiðimanna er mikil – Sölubann á rjúpum

Rjúpa© Jakob Sigurðsson

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

Þá vill Fuglavernd minna á að í gildi er sölubann þannig að óheimilt er að bjóða til sölu, flytja út eða selja rjúpur eða rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því banni eftir.

Rjúpnaveiðitímabil (Lagopus mutus)

Árin 2019 – 2021 er heimilt að veiða rjúpu frá og með 1. nóvember til og með 30. nóvember, frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili.

  • Áfram er í gildi sölubann á rjúpum
  • Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins haustið 2019 og hafa niðurstöðurnar verið kynntar umhverfis- og auðlindaráðherra með bréfi. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er 72 þúsund fuglar. Forsendur matsins byggja á þeirri stefnu stjórnvalda að rjúpna- veiðar skuli vera sjálfbærar.

Náttúrufræðistofnun Íslands leggur þó mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og í ljósi rýmkaðs veiðitíma er ábyrgð veiðimanna mikil.

Meira um: veiðiþol rjúpnastofnsins á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Sjálfbærni rjúpnaveiða

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með rjúpnaveiðum.

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Hófsemi veiðimanna er lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum.

Veiðiverndarsvæði Suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005:

“Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”