Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði og virkjun vindorku

Vegna hugmynda sem uppi eru um virkjun vindorku á Úthéraði sendi Fuglavernd Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bréf þann 14. mars vegna kynningarfundar sem haldinn var þann 15. mars 2018.

Þar segir:

Fuglavernd lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af hugmyndum um vindmyllugarð á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði við Hól á Úthéraði. Reynsla erlendis frá hefur sýnt að auðugt fuglalíf og vindmyllugarðar fara ekki saman og áhrifin geta verið mjög alvarleg fyrir fugla.

Hólsland og nálæg votlendi á Úthéraði eru á skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (VOT-A 3) og er einnig á IBA skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna (BirdLife International) um mikilvæg fuglasvæði (IS 040). Við mótmælum þessum hugmyndum!

Bréf til Sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs vegna kynningar- og umræðufundar um möguleika á virkjun vindorku á Úthéraði. 

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði

Fuglalíf er mikið og fjölbreytt á Úthéraði (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001) og þær tegundir varpfugla sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum eru lómur (220 pör), flórgoði (38 pör), grágæs (1.600 pör) og kjói (1.300 pör). Hið sama á við um grágæs á fjaðrafellitíma (7.700 fuglar) og fartíma (7.517 fuglar).

Ysti hluti Úthéraðs, votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá, Húsey, Eylendið í Jökulsárhlíð, ásamt Egilsstaða- og Finnsstaðanesjum utan við Egilsstaði, eru á náttúruminjaskrá. Allt svæðið er á IBA-skrá.