Álftir, með unga á bakinu

Fuglavernd mótmælir þingsályktunartillögu um leyfi til veiða á álftum og gæsum

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar, 312/151 þáltill.: leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma

Fuglavernd mótmælir harðlega tillögu til þingsályktunar um að leyfa veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Álft er alfriðuð tegund og veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir. 

Mikilvægasta gagnrýnin snýr þó að því að farið sé fram á að veiða þessar tegundir þegar þær eru að snúa til baka frá vetrarstöðvum og á varptíma. Fuglavernd telur slíkt algjörlega óverjandi á siðferðilegum forsendum auk þess sem það stríðir gegn fjölþjóðlegum lögum sem gilda víðast hvar á vetrarstöðvum þessara fuglategunda.  

Í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni er bent á að líklega sé álftin skotin ólöglega en rannsóknir í Bretlandi þar sem álftir voru gegnumlýstar sýndu að um 13% íslenskra álfta væru með blýhögl í líkamanum. Sjá: https://fuglavernd.is/2019/10/11/alftir-eru-skotnar-a-islandi-og-thad-er-ologlegt/ 

Þó að þetta ólöglega athæfi eigi sér stað þá rennir það ekki stoðum undir að leyfa það.

Miklu nær væri að finna leiðir til að fæla fugla frá svæðum. Samhliða því að fæla fugla frá þeim svæðum sem þeir mega ekki vera á, mætti koma upp túnum og ökrum sem þeim væri leyft að

bíta, en það mundi eflaust auka árangurinn af fælingaraðgerðum ef fuglarnir gætu farið á önnur tún í staðinn. Það mætti e.t.v. hugsa sér að ríkisstyrkur kæmi til fyrir slík „fuglatún”.

Veiðar á þessum tegundum á varptíma stríða gegn öllum viðurkenndum, alþjóðlegum siðareglum og meginreglum um fuglaveiði og gegn alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt.

Sjá bréf sent nefndasviði Alþingis í heild sinni undir Ályktanir og umsagnir

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Teista friðuð fyrir skotveiðum

Teista. Ljósmynd: ©Sindri Skúlason

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með reglugerð friðað teistu fyrir skotveiðum. Ákvörðun um friðun er tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnunar.

Teista er grunnsævisfugl sem telst til svartfugla og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu í allmörg síðustu ár.

Í júní sl. barst ráðherra áskorun frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Skotvís og Vistfræðifélags Íslands um að friða teistu fyrir skotveiðum vegna lítillar stofnstærðar hennar hérlendis sem fer minnkandi. Bent er á að tegundin hafi í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og því hafi ekki verið sérstaklega sóst eftir henni.

Friðunin tekur gildi 1. september2017. Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 456/1994, um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, með síðari breytingum.

Fuglavernd fagnar þessari reglugerðarbreytingu en betur má ef duga skal. Í dag, 1. september hefst veiðitími annara svartfuglategunda: Álku, langvíu, stuttnefju, lunda, en veiðar úr þessum stofnum eru áfram löglegar skv. fyrrgreindri reglugerð.

Í býgerð eru fleiri áskoranir á ráðherra, byggðar á skýrslu Starfshóps umhverfisráðherra um verndun og endurreisn svartfuglastofna, Greinargerð og tillögur starfshópsins, en skýrslunni var skilað árið 2011. Starfshópinn skipuðu: Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Menja von Schmalensee, Sigurður Á. Þráinsson, Steinar R. B. Baldursson, Sæunn Marinósdóttir.

Þar segir m.a.:

„hnignun þessara fimm stofna hefði verið veruleg undanfarin 10-15 ár og dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir þannig að þeir þoli veiðar án þess að það gangi frekar á þá. Forsendur fyrir nýtingu þeirra, hvort sem er með skotveiðum eða hlunnindanýtingu, eru þar af leiðandi ekki lengur fyrir hendi. Starfshópurinn telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða þegar í stað til þess að auka verndun þessara tegunda meðan stofnarnir eru á niðurleið og þar til þeir hafa jafnað sig og varp og nýliðun komin í horf sem talist getur eðlilegt. Meirihluti starfshópsins telur nauðsynlegt að stöðva tímabundið veiðar og nýtingu þessara fimm tegunda sem hann fjallaði um. Minnihluti hópsins (fulltrúar Skotvís og Umhverfisstofnunar eftir atvikum) tekur undir nauðsyn þess að friða teistu og lunda tímabundið fyrir veiðum og nýtingu en telur hins vegar að það nægi að draga tímabundið úr veiðum á svartfugli.“

Við fögnum því í dag þeim áfangasigri sem náðst hefur, en höldum áfram ótrauð vegferð fuglaverndar.

Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Áskorun til rjúpnaveiðimanna

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár og hvetur Fuglavernd veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar.  Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi. . Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög.

Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og prýðir hún einnig vinsælt jólakort Fuglaverndar.