Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Teista friðuð fyrir skotveiðum

Teista. Ljósmynd: ©Sindri Skúlason

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með reglugerð friðað teistu fyrir skotveiðum. Ákvörðun um friðun er tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnunar.

Teista er grunnsævisfugl sem telst til svartfugla og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu í allmörg síðustu ár.

Í júní sl. barst ráðherra áskorun frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Skotvís og Vistfræðifélags Íslands um að friða teistu fyrir skotveiðum vegna lítillar stofnstærðar hennar hérlendis sem fer minnkandi. Bent er á að tegundin hafi í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og því hafi ekki verið sérstaklega sóst eftir henni.

Friðunin tekur gildi 1. september2017. Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 456/1994, um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, með síðari breytingum.

Fuglavernd fagnar þessari reglugerðarbreytingu en betur má ef duga skal. Í dag, 1. september hefst veiðitími annara svartfuglategunda: Álku, langvíu, stuttnefju, lunda, en veiðar úr þessum stofnum eru áfram löglegar skv. fyrrgreindri reglugerð.

Í býgerð eru fleiri áskoranir á ráðherra, byggðar á skýrslu Starfshóps umhverfisráðherra um verndun og endurreisn svartfuglastofna, Greinargerð og tillögur starfshópsins, en skýrslunni var skilað árið 2011. Starfshópinn skipuðu: Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Menja von Schmalensee, Sigurður Á. Þráinsson, Steinar R. B. Baldursson, Sæunn Marinósdóttir.

Þar segir m.a.:

„hnignun þessara fimm stofna hefði verið veruleg undanfarin 10-15 ár og dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir þannig að þeir þoli veiðar án þess að það gangi frekar á þá. Forsendur fyrir nýtingu þeirra, hvort sem er með skotveiðum eða hlunnindanýtingu, eru þar af leiðandi ekki lengur fyrir hendi. Starfshópurinn telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða þegar í stað til þess að auka verndun þessara tegunda meðan stofnarnir eru á niðurleið og þar til þeir hafa jafnað sig og varp og nýliðun komin í horf sem talist getur eðlilegt. Meirihluti starfshópsins telur nauðsynlegt að stöðva tímabundið veiðar og nýtingu þessara fimm tegunda sem hann fjallaði um. Minnihluti hópsins (fulltrúar Skotvís og Umhverfisstofnunar eftir atvikum) tekur undir nauðsyn þess að friða teistu og lunda tímabundið fyrir veiðum og nýtingu en telur hins vegar að það nægi að draga tímabundið úr veiðum á svartfugli.“

Við fögnum því í dag þeim áfangasigri sem náðst hefur, en höldum áfram ótrauð vegferð fuglaverndar.

Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
geirfuglinn er útdauður

Ályktun um uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands

Í umboði neðangreindra samtaka skorum við á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðherra að taka hið fyrsta af skarið varðandi málefni Náttúruminjasafns Íslands og búa þannig um hnúta að starfsemi þess rísi undir nafni við miðlun á fróðleik og þekkingu á náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda, eins og lög kveða á um.

Ályktun Alþingis nr. 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis fullveldis Íslands, sem formenn allra þingflokka á Alþingi fluttu undir lok síðasta kjörtímabils og samþykkt var með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust er mikið fagnaðarefni. Þar kemur m.a. fram að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni ... „að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“

Það veldur því vonbrigðum að Náttúruminjasafns Íslands skuli hvergi vera getið í tillögu ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálaáætlun 2018–2022.

Á 100 ára afmæli HÍN árið 1989 kynnti menntamálaráðherra áætlanir um að reist yrði hús yfir Náttúrugripasafn Íslands. Í kjölfarið var mæld út lóð í Vatnsmýri fyrir byggingu Náttúruhúss sem var hugsað sem safnbygging og aðsetur Náttúrugripasafns. Í deiliskipulagi Háskólasvæðisins er enn gert ráð fyrir Náttúruhúsi á þessum stað, á svonefndum G-reit.

Staða Náttúruminjasafnsins, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, hefur frá upphafi verið óviðunandi og safnið búið við þröngan kost þau tíu ár sem liðin eru frá stofnun þess. Fjárheimildir hafa verið afar naumt skornar, starfsmenn aðeins tveir hið mesta, skrifstofuaðstaða ótrygg og engin aðstaða til sýningahalds, kennslu eða miðlunar fróðleiks á eigin vegum.

Öflugt náttúrufræðisafn styrkir menntakerfið og menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Menntun landsmanna í náttúrufræðum er forsenda sjálfbærni í atvinnugreinum þjóðarinnar, sem nær allar hvíla á nýtingu náttúrunnar. Aukinn skilningur á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta verkefni samtímans og skólaæska landsins á sannarlega skilið metnaðarfullt og nýstárlegt náttúrufræðisafn þar sem undrum og ferlum náttúrunnar eru gerð skil.
Það er mikils um vert að ekki verði hvikað frá þeim góðu fyrirheitum sem gefin eru í fyrrnefndri ályktun Alþingis.

Ljósmynd: Geirfuglinn. Myndin er fengin af vef Náttúruminjasafns Íslands, www.nmsi.is

Áskorun til grænlenskra stjórnvalda

Fuglavernd skorar á Grænlensk stjórnvöld að hlífa stuttnefjunni. Það hefur vakið athygli umheimsins að grænlenska landsstjórnin hefur heikst á að friða stuttnefjuna, þrátt fyrir að fjöldi aðvörunarbjalla hafi hringt undanfarin ár um að hún stæði á barmi útrýmingar. Fuglavernd ásamt fuglaverndarsamtökum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum og Alþjóðasamtökum BirdLife hafa skorað á grænlensku landsstjórnina að stöðva alla veiði á stuttnefju. Það stefnir í að veiðar útrými tegundinni sem varpfugli í Grænlandi á fáum árum en gríðarlegt veiðiálag er á fugla við Vesturströnd Grænlands. Stuttnefjum sem verpa hér við land hefur fækkað mikið á síðustu árum og er talsvert af þeim drepið á vetrarstöðvum vestur af Suður-Grænlandi. Þar eru bæði mikilvægar varpstöðvar grænlenskra stuttnefja og vetrarstöðvar íslenskra. Fuglaverndarsamtökin skora á landsstjórnina að nýta náttúruauðlindir þess á sjálfbæran hátt.

Ljósmynd: Lars Maltha Rasmussen/DOF