Ályktun frá Fuglavernd vegna vegagerðar í Gufudalssveit

Stjórn Fuglaverndar hvetur stjórnvöld til að fara að öllu með gát og skoða fleiri möguleika varðandi vegagerð í Gufudalssveit. Félagið lýsir yfir stuðningi við vegagerð í Gufudalssveit með göngum undir Hjallaháls. Með þeirri leið verður til láglendisvegur á þessu svæði og er því ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í hana strax og bæta þannig úr brýnum þörfum Vestfirðinga á betri samgöngum.

Fuglavernd telur, að með þessu megi koma í veg fyrir þau miklu náttúrspjöll, sem myndi hljótast af vegagerð við vestanverðan Þorskafjörð, en hún fer um óspilta náttúru, m.a. eftir Teigsskógi endilöngum, út í sjó og yfir tanga yst á Hallsteinsnesi og yfir eyjar og sker í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar, í nágrenni tveggja arnarsetra. Mikilvægum fæðusvæðum vaðfugla, æðarfugla og varpsvæði arna er því stefnt í hættu. Stíflun Gilsfjarðar ætti að vera mönnum víti til varnaðar á þessu svæði.

Sindri Skúlason tók myndina.

Fuglavernd telur að í náttúruverndarmálum verði menn að horfa til framtíðar og ekki sé réttlætanlegt að fórna náttúruverðmætum, sem auk þess eru á náttúrminjaskrá, skrá um Alþjóðalega mikilvæg fuglasvæði og falla undir lög um verndun Breiðafjarðar og Ramsar-sáttmálann, þegar aðrar leiðir eru fyrir hendi eins og í þessu máli. Göng undir Hjallháls er ein af þeim.

Stjórn Fuglaverndar 8.10.2014